10.10.2025
Nýr sjóður um fjármögnun fyrirtækja
Íslensk verðbréf hf. hefur stofnað sjóðinn SIV Credit Fund II slhf. Sjóðurinn er samlagshlutafélag sem hefur það markmið að fjárfesta í skuldabréfum og lánum til fyrirtækja, að mestu með veði í fasteignum og öðrum fastafjármunum. Heildaráskriftarloforð sjóðsins nema 12,6 milljörðum króna og eru eigendur sjóðsins margir af stærstu fagfjárfestum landsins.

Framkvæmdastjóri sjóðsins er Þorkell Magnússon, sem jafnframt er forstöðumaður sjóðastýringar hjá Íslenskum verðbréfum, en hann hefur áratuga reynslu af fjármálamarkaði. Í fjárfestingateymi sjóðsins eru jafnframt þau Anna Kristjánsdóttir, Sigurður Ottó Þorvarðarson og Guðrún Una Valsdóttir.
„Þetta er ánægjuleg niðurstaða þar sem við teljum góð tækifæri vera á þeim mörkuðum sem sjóðurinn starfar. Fyrirtæki hafa þörf fyrir aukna valkosti í fjármögnun og er þetta liður í því að efla þann hluta starfsemi félagsins ásamt því að bjóða fjárfestum upp á áhugaverðan fjárfestingarkost“ segir Þorkell Magnússon.
„Íslensk verðbréf leggja mikla áherslu á sjóði um fjármögnun fyrirtækja og höfum við unnið markvisst að því að efla þá starfsemi á árinu. Stofnun SIV Credit Fund II er mikilvægur áfangi í þeirri þróun, en á árinu var jafnframt stofnaður SIV Alternative Credit Fund. Þetta markar jákvætt skref í áframhaldandi uppbyggingu Íslenskra verðbréfa, en eignir í stýringu félagsins nema nú 225 milljörðum króna,“ segir Arnór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hf.
Nánari upplýsingar veitir Þorkell Magnússon, forstöðumaður sjóðastýringar hjá Íslenskum verðbréfum, í síma 854-1090.