Markaðsfréttir 02.-06. júní

Vikan 2. til 6. júní

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) eru enn á niðurleið og lækkuðu um 1,73% í vikunni. Eitt félag hækkaði og var það Bakkavör (2,3%). Það var hins vegar Icelandair sem fór verst út úr vikunni með rúmlega 9% lækkun. Júní byrjar því á sama hátt og maí endaði, þ.e. með lækkun. Viðskiptamagnið er hins vegar mjög lítið og því þarf ekki mikið til að keyra markaðinn upp þegar aðstæður breytast. Það er þó ennþá mikil svartsýni í gangi og ljóst að auknar líkur á vaxandi erfiðleikum á heimsvísu vegna hækkandi olíuverðs, hjálpa ekki til.

Skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,64% í vikunni og óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,01%. Það var áfram mikil velta á skuldabréfamarkaði og verðtryggðu bréfin réttu  aðeins úr kútnum eftir erfiðar vikur. Óverðtryggðu bréfin lækkuðu hins vegar. Framhaldið næstu vikurnar er óljóst og nánast ómögulegt að spá um það þar sem mörg öfl takast á s.s. háir vextir, gengi krónunnar, fjármögnun bankanna og lánsfjárkreppa svo þau helstu séu nefnd. Til lengri tíma er útlitið hins vegar nokkuð gott.

Krónan

Gengisvísitala krónunnar veiktist um 1,89% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ. Krónan er því farin að veikjast aftur eftir styrkingu síðustu vikurnar. Fjárfestar virðast halda að sér höndum vegna óvissu um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og óvissu um hversu vel bönkunum gengur að fjármagna sig. Það hefur dregið verulega úr viðskiptamagni á gjaldeyrismarkaði líkt og á hlutabréfamarkaði og má segja að markaðurinn sé stefnulaus.