Markaðsfréttir 08. - 12. desember 2008

Vikan 8. desember -12. desember, 2008 Hlutabréf Hlutabréf lækkuðu almennt  í vikunni. Össur var eina félagið sem hækkaði og var hækkunin 0,62%.  Opnað var fyrir viðskipti með Exista og Straum í fyrsta sinn frá bankahruninu. Exista lækkaði um 98,7% og Straumur um 62,43%.

Vikan 8. desember -12. desember, 2008

Hlutabréf

Hlutabréf lækkuðu almennt  í vikunni. Össur var eina félagið sem hækkaði og var hækkunin 0,62%.  Opnað var fyrir viðskipti með Exista og Straum í fyrsta sinn frá bankahruninu. Exista lækkaði um 98,7% og Straumur um 62,43%.

Af öðrum félögum lækkaði Bakkavör mest eða um 16,28%. Af þeim félögum sem lokað var fyrir viðskipti með í kjölfar bankahrunsins er einungis SPRON enn lokað. Við teljum ólíklegt að viðskipti með félagið hefjist aftur. Líklegast er að það renni inn í annað fjármálafyrirtæki og hverfi þar með af markaði.

 

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um rúm 4,67% í vikunni en óverðtryggðu bréfin lækkuðu um  0,26%. Ríkið hækkaði álögur á eldsneyti, áfengi og hækkaði jafnframt bifreiðagjöldin. Þessar hækkanir valda töluverðum verðlagshækkunum og því ekki óeðlilegt að eftirspurn aukist eftir verðtryggðum bréfum. Verðið hækkaði hins vegar meira en efni stóðu til og er ástæðan sú að lífeyrissjóðirnir sækja mikið í löng verðtryggð bréf á sama tíma og framboðshliðin liggur tímabundið niðri. Íbúðalánasjóður hefur ekki ennþá gert samninga við bankana um viðskiptavakt og hafa því ekki gefið út ný bréf. Til viðbótar er mikið af íbúðabréfum föst í íslenska seðlabankanum og reyndar þeim evrópska líka og óvíst hvenær þau bréf fara á markaðinn aftur.

 

Krónan

Krónan styrktist um tæp 5% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 204,1 stigi. Við teljum líklegt að krónan haldi áfram að styrkjast næstu daga þar sem innflutningur er lítill á sama tíma og  útflutningsaðilar taka sölutekjur heim.  Krónan veiktist þó aðeins undir lok vikunnar og var það vegna gjalddaga á ríkisbréfum sem var á föstudaginn.  Erlendir fjárfestar þurftu að halda höfuðstólnum áfram í krónum en gátu tekið vextina heim. Vextirnir voru 6-8 milljarðar og því ekki óeðlilegt að krónan veiktist aðeins þar sem gjaldeyrisflæðið er lítið.