Markaðsfréttir 08.-12. september 2008.

Vikan 8.-12.  september, 2008 

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) lækkuðu um 2,24% í vikunni og hefur markaður þá lækkað um tæp 6% það sem af er september. Að þessu sinni voru það þrjú félög sem hækkuðu - Atorka um 5,24%, Marel um 0,83% og Kaupþing um 0,14%.  Á hinum endanum voru það Eimskip sem lækkaði mest eða um 35,43% og Teymi sem lækkaði um 24,76%. Eimskip hefur lækkað mikið síðustu daga og rær félagið nú lífróður og því viðbúið að fjárfestar yfirgefi skipið. Það sem knúði markaðinn niður að öðru leyti voru áframhaldandi áhyggjur af eignasafni bankanna og almenn svartsýni um framhaldið.  

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf lækkuðu um 0,34% í vikunni en óverðtryggðu bréfin hækkuðu um 0,46%. Krafa lengstu óverðtryggðu bréfanna var komin yfir 10% og þá tóku fjárfestar við sér og skiptu úr verðtryggðu yfir í óverðtryggt. Krónan hefur hins vegar verið að veikjast og haldi það áfram má búast við að eftirspurn eftir verðtryggðum bréfum aukist aftur. 

Krónan

Krónan veiktist um 2,2% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 168,4 stigum. Krónan heldur því áfram að veikjast og hefur veikst um tæp 6% í september. Skýringuna má leita annars vegar í stórum gjalddaga jöklabréfa og hins vegar mikils viðskiptahalla. Til viðbótar hefur áhættufælni aukist um allan heim og kemur það niður á hávaxtamyntum.