Markaðsfréttir 09-.13. júní

Vikan 9.-13. júní

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) eru enn á niðurleið og lækkuðu um 4,84% í vikunni. Það var ekkert félag sem hækkaði að þessu sinni. Það var hins vegar Teymi sem fór verst út úr vikunni með rúmlega 30% lækkun og Eimskip með rúmlega 28% lækkun. Viðskiptamagnið er áfram mjög lítið og ljóst að það er mikil svartsýni í gangi á markaðinum. Framhaldið er í óvissu en ljóst að svartsýni ásamt erfiðu aðgengi að lánsfé verður dragbítur hlutabréfamarkaðarins eitthvað áfram.

Skuldabréf

Það var áfram mikil velta á skuldabréfamarkaði og héldu verðtryggðu bréfin áfram að hækka en þau hækkuðu um 0,79% í vikunni en óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,39%. Veiking krónunnar hafði þar mestu áhrifin. Framhaldið næstu vikurnar ræðst að töluverðu leyti af þróun á gengi krónunnar þar sem fjárfestar færa sig til á milli verðtryggra og óverðtryggðra bréfa eftir því hvernig verðbólguvæntingar þróast. Það verður töluvert verðbólguskrið í júlí en það ætti að draga verulega úr verðbólguhraðanum í ágúst þar sem sumarútsölurnar ættu að hafa töluvert mikil áhrif á verðmælinguna.

Krónan

Gengisvísitala krónunnar veiktist um 3,36% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ. Þetta er mikil veiking og ljóst að fjárfestar þora ekki að taka stöðu með krónunni enda kannski ekki áhugavert þegar svo mikil óvissa ríkir auk þess sem vaxtamunurinn er ekki til staðar. Á móti kemur að það hefur sjaldan verið ódýrara að taka stöðu gegn krónunni. Til að nýta sér veika krónu og ná inn vaxtamun verða fjárfestar að selja erlendu eignirnar og koma aurunum í krónuávöxtun.