Markaðsfréttir 1. - 5. júní 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Viljir þú skráð þig á póstlistann biðjum við þig að senda póst þess efnis á iv@iv.is       

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Viljir þú skráð þig á póstlistann biðjum við þig að senda póst þess efnis á iv@iv.is 

 

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 1,9% í vikunni. Af skráðum hlutafélögum í kauphöllinni hækkaði Færeyjarbanki mest, um 2,9% og Össur um 0,5%. Marel lækkaði hinsvegar mest, um 15,5% og Bakkavör um 6,6%.

Velta í vikunni var um 640 milljónir og var um helmingur þess með bréf Færeyjarbanka og litlu minna með bréf Marels. Í vikunni stóð Marel fyrir lokuðu hlutafjárútboði og sótti sér 1,4 milljarða króna sem nota á til að styrkja lausafjárstöðu félagsins.

Hlutafjárútboðið spilar inn í lækkun á gengi félagsins en gengið lækkaði í vikunni úr 64,5 og endaði í 54,5. Samþykkt tilboð í útboðinu voru á genginu 54. Marel hefur því nýverið bætt fjárhagsstöðu sína bæði í gegnum skuldabréfa- og hlutabréfútboð.  

 

Erlend hlutabréf

Helstu hlutabréfamarkaðir hækkuðu í vikunni og var hækkun heimshlutabréfavísitölu MSCI 1,3%. Af stærri landsvísitölunum hækkaði DAX í Þýskalandi um 2,8%, Nikkei í Japan um 2,6%, S&P 500 í Bandaríkjunum um 2,3% og FTSE í Bretlandi um 0,5%.   Norræna  VINX Benchmark vísitalan lækkaði um 0,3%.

Ýmsir telja að botni lausafjárkrísunnar sé náð og framundan sé hægfara bati. Hrávöruverð hefur farið mjög hækkandi og hafa mörg fyrirtæki því tengd hækkað verulega í verði.

Hlutabréfavísistölur með hátt vægi hrávöru- og olíuvinnslufyrirtækja hafa hækkað mjög mikið frá því botninum var náð í mars. Þar má nefna vísitölur í Suður Ameríku, Rússland og Kína, auk hlutabréfavísitalna sem tengjast hrávörum.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur meira en tvöfaldast frá því það náði lágmarki í desember. Það verður að teljast mjög sérstakt hvað verðið er hátt miðað við aðstæður sem uppi eru í heimsbúskapnum og verulegar líkur á að olíuverð muni hækka verulega þegar hjólin fara að snúast á ný.

 

 

Skuldabréf

Töluverðar sveiflur voru á skuldabréfamarkaðinum í síðustu viku og var veltan mikil.  Verðtryggð skuldabréf enduðu í 0,61% hækkun en óverðtryggð skuldabréf lækkuðu hins vegar um 49%. Verðtryggð bréf njóta þessa að framundan er töluverð verðbólga auk þess sem framboð verðtryggðra bréfa er lítið.

Á sama hátt gjalda óverðtryggðu bréfin þess að framboðið er mikið, há verðbólga í júní og þess að stýrivextir lækkuðu mun minna en fjárfestar reiknuðu með. Það sem skapar enn meiri óvissu fyrir löng óverðtryggð bréf er útboð á nýjum löngum flokki með lokagjalddaga 12. júní 2025.

 

Krónan

Krónan styrktist um 0,5% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 223,2 stigum. Krónan hefur heldur verið að styrkjast sl. tvær vikur en veiking er samt sem áður um 2,1% sé horft mánuð aftur í tímann.

Íslenska krónan hefur verið að gefa eftir gagnvart evru á erlendum mörkuðum og er nú á milli 220 og 230 í einni evru. Hér á landi eru verðið á evru um 177 krónur. Því er ljóst að áhugi fjárfesta að ávaxta fjármuni á Íslandi er að minnka, en einnig spilar inn í að möguleikar fjárfesta til að færa vaxtagreiðslur úr landi hafa verið minnkaðir.

Stjórnvöld hafa aukið við gjaldeyrishöftin en slíkt er eðli hafta því hvati til að fara framhjá þeim er ávallt til staðar og eykst sem höftin eru meiri. Það jákvæða er að stjórnvöld hafa á stefnuskrá sinni að afnema gjaldeyrishöft í áföngum en slíkt er forsenda þess að öflugt og samkeppnishæft atvinnulíf geti þrifist í landinu.