Markaðsfréttir 10.-14. nóvember

Vikan 10. nóvember - 14.  nóvember, 2008Hlutabréf Það hefur aðeins færst líf í hlutabréfamarkaðinn en hann er mjög laskaður ennþá og ljóst að það tekur langan tíma að blása almennilegu lífi í hann. Þau félög sem hreyfast mest eru Marel, Alfesca, Össur og Century Aluminum. Verðið hefur hækkað enda hefur veiking  krónunnar aukið virði félaganna mikið.

Vikan 10. nóvember - 14.  nóvember, 2008

Hlutabréf

Það hefur aðeins færst líf í hlutabréfamarkaðinn en hann er mjög laskaður ennþá og ljóst að það tekur langan tíma að blása almennilegu lífi í hann. Þau félög sem hreyfast mest eru Marel, Alfesca, Össur og Century Aluminum. Verðið hefur hækkað enda hefur veiking  krónunnar aukið virði félaganna mikið.

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um tæp 4% í vikunni en óverðtryggðu bréfin lækkuðu um  2,6%. Fjárfestar hafa aðeins sótt í verðtryggðu bréfin þar sem verðbólguskriðið er mikið núna og verður svo eitthvað áfram. Áhyggjur fólks af því hvort ríkistryggingin á innlánin myndi halda ýtti líka undir eftirspurn eftir ríkistryggðum bréfum. Þessar sögusagnir urðu það háværar að forsætisráðherra þurfti að ítreka fyrri yfirlýsingar þessa efnis.

Krónan

Krónan veiktist um 2,47% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 228,7913 stigum. Krónan hefur verið að veikjast hægt og rólega síðustu vikurnar og er það óvissa um erlendar lántökur og hvaða áhrif flótti erlendra fjárfesta úr krónunni hefur á gengi hennar sem veldur þessu. Flestir eru þó sammála um að krónan eigi eftir að veikjast á meðan erlendu fjárfestarnir losa sig við hana en styrkjast svo í kjölfarið. Það er þó háð því að töluverð gjaldeyrishöft verði áfram ríkjandi til að koma í veg fyrir að innlendir fjárfestar losi sig við krónuna í miklu mæli.