Markaðsfréttir 11. apríl – 15. maí 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.is      

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.is

 

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 3,4% í vikunni. Af skráðum hlutabréfum í Kauphöllinni hækkaði Marel mest, um 10,8% og Alfesca um 6,9%. Mest lækkuðu bréf Century Aluminum, um 14,2%. Velta nam 2,9 milljörðum á móti 859 milljónum í vikunni á undan. Velta með bréf Icelandair nam tæplega 1,9 ma.kr, 530 m.kr með bréf Marels og 381 m.kr með bréf Össurar.

Alfesca skilaði uppgjöri fyrir þriðja fjórðung rekstrarársins 2008/2009 og tók markaðurinn ágætlega í það. Velta félagsins dróst saman um 8% og EBITDA framlegð minnkar um 30%. Unnið er að sameiningu verksmiðja og einnig eru aðstæður á hráefnismörkuðum félaginu erfiðar, sérstaklega með lax. Félagið er ágætlega fjármagnað en óvissa varðandi eignarhald Alfesca er mikil.  

 

 

Erlend hlutabréf

Lækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í vikunni og lækkaði Heimshlutabréfavísitala MSCI um 3,4%. Í Bandaríkjunum lækkaði S&P 500 vísitalan um 5,0% og VINX Benchmark vísitalan sem nær yfir öll Norðurlöndin lækkaði um 4,5%. Frá því að markaðir náðu lágmarki í byrjun mars hafa vísitölur helstu markaða hækkað í kringum 30% en Norræna vísitalan hefur hækkað yfir 40%.

Þrátt fyrir ágætar hækkanir eru mörg góð tækifæri á Norrænu mörkuðunum enda mikið af sterkum fyrirtækjum með þekkt vörumerki á heimsvísu. Vafalítið munu innlendir fjárfestar í auknum mæli horfa til Norðurlandanna með fjármuni sína þegar fram líða stundir.

 

 

Skuldabréf

Skuldabréf héldu áfram að hækka s.l. viku.  Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,56% og óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,39%. Krafa ríkisskuldabréfa hefur farið hratt niður undanfarið vegna stýrivaxtalækkana SÍ. Þetta gerist þrátt fyrir mikið framboð af óverðtryggðum bréfum.  Ástæðurnar eru nokkrar.

Erlendir fjárfestar sitja fastir með um 400 milljarða sem eru annars vegar í innlánum og hins vegar í ríkistryggðum bréfum. Þeir hafa brugðið á það ráð að flakka á milli skuldabréfaflokka í þeim tilgangi að vera fjárfestir í flokkum þar sem stór hluti verðsins eru vextir.  Sem kunnugt er mega þeir flytja vaxtagreiðslur úr landi og með þessu eru þeir að hámarka þennan fjármagnsflutning.

Innlendir fjárfestar eru í auknum mæli að fara úr innlánum í ríkistryggða sjóði og ýta þar með undir eftirspurn, aðallega eftir stuttum bréfum. Einnig eru ríkistryggð bréf og innlán nánast eini fjárfestingarvalkostur lífeyrissjóða þar sem þeim er óheimilt að fjárfesta erlendis og innlendi hlutabréfamarkaðurinn er of þunnur fyrir þá, a.m.k enn um sinn.

Spákaupmenn hafa verið virkir á skuldabréfamarkaðinum enda er það eini markaðurinn sem þeir geta unnið á þar sem hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaðurinn eru óvirkir.

 

 

Krónan

Krónan veiktist um 1,9% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 222,7 stigum. Undanfarnar vikur hefur krónan verið að styrkjast mikið á móti evru á erlendum mörkuðum á sama tíma og krónan veikist hér heima.

Krónan eru á bilinu 15-25% veikari erlendis en hér heima. Ljóst er að einhverjir fjárfestar eru að kaupa krónur til að taka stöðu á Íslandi eða til að greiða fyrir kostnað í krónum og þannig ætti að ganga á krónueignir þeirra fjárfesta sem eru órólegir með sínar stöður.

Einnig virðist vera að erlendir aðilar kaupi ríkistryggð skuldabréf þar sem stutt er í gjalddaga og þannig ná þeir að flytja mun hærri vaxtatekjur úr landi en sem nemur áföllnum vöxtum til þeirra frá kaupum bréfanna. Vaxtatekjunum geta þeir skipt fyrir evrur á innlendum gjaldeyrismarkaði og þeir sem vilja fjárfesta aftur á Íslandi geta síðan keypt krónur á mun lægra verði erlendis og þannig hagnast.