Markaðsfréttir 12.-16. janúar

Innlend hlutabréf Hlutabréf áttu misjöfnu gengi að fagna í  vikunni. Straumur hækkaði mest, um  27,62%, eftir miklar lækkanir undanfarið.

Innlend hlutabréf

Hlutabréf áttu misjöfnu gengi að fagna í  vikunni. Straumur hækkaði mest, um  27,62%, eftir miklar lækkanir undanfarið.

Eimskip sem hækkaði mest í vikunni á undan lækkaði mest  í síðustu viku, um 17,2%. Önnur félög voru með mun minni breytingar og endaði OMXI6ISK vísitalan í 1,12% hækkun.  Innlendur hlutabréfamarkaður er mjög laskaður og ber þess merki að áhugi fjárfesta er lítill. Áhætta samfara kaupum á innlendum hlutabréfum er mikil og því kjósa fjárfestar kjósa að hafa sína peninga í áhættuminni eignaflokkum. Hinsvegar eru enn áhuga verðir kostir á markaðinum og má þar nefna Marel og Össur.

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf halda áfram að lækka og nam lækkun á heimsvísitölu MSCI um 6,16% í vikunni. Hafa þau lækkað um 5,91% frá áramótum. Flestar hlutabréfavísitölur eru á niðurleið. Fjárfestar vænta dýpri kreppu en áður var talið og væntingar um minni neyslu og fjárfestingar draga hlutabréfaverð niður. Hinsvegar er verðið orðið mjög lágt. Verðkennitalan verð/hagnaði er mjög lág í sögulegu samhengi, sé horft til 10-15 ára. Samkvæmt þeim mælikvarða hafa hlutabréf flest allra af stærstu hlutabréfavísitölunum ekki verið ódýrari. Óvissan er mjög mikil og flest bendir til áframhaldandi hnignunar markaða.

 

 

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf lækkuðu um rúm 2% í vikunni en óverðtryggðu bréfin hækkuðu lítillega. Báðir vaxtaferlarnir, verðtryggði og óverðtryggði hliðruðust upp í vikunni  og endurspeglar það væntingar fjárfesta um aukið framboð af innlendum skuldabréfum, frá opinberum aðilum. Verðbólguálagið minnkaði í vikunni en er of hátt ef hratt dregur úr  verðbólgu á seinni hluta ársins. Það veltur hinsvegar á þróun krónunnar.  Á móti kemur að búast má við töluverðu framboði ríkistryggðra bréfa þegar kemur fram í febrúar og mars. 

 

 

Krónan

Krónan breyttist nær ekkert frá upphafi til loka síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 220,02 stigum. Krónan hefur verið að veikjast nær samfellt frá 9. desember 2008 eftir snarpa styrkingu í kjölfar laga um gjaldeyrishöft. Það virðist sem útflytjendur haldi tekjum sínum í erlendri mynt í stað þess að breyta þeim í krónur. Líklegt er að krónan mun ekki ná að styrkjast fyrr en lausn er fundin til að koma á miklum fjármunum sem erlendir aðilar eiga hér á landi úr landi eða jafnvel í lengri tíma verkefni hér á landi.