Markaðsfréttir 13. -17. júlí 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 0,4% í vikunni. Af skráðum hlutafélögum hækkaði Century Aluminum mest, um 18,0% og Bakkavör um 10,2%.

Mest lækkuðu bréf Icelandair Group, um 8,9% og Atlantic Petroleum um 6,5%. Velta með hlutabréf jókst frá síðustu viku og var um 204 milljónir króna. Þar af voru mestu viðskipti með Össur kr. 73 milljónir og með Færeyjabanka kr. 58 milljónir.

 

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf hafa hækkað vel í þessari viku og má rekja það til góðra afkomu stórfyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu á öðrum árfjórðungi. Dow Jones vísitalan hækkaði alla daga vikunnar og samtals um 4,9%.  MSCI heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 6,7%.

Stærri landsvísitölur hækkuðu allar í vikunni og nam hækkun DAX í Þýskalandi 5,4%, Nikkei í Japan um 3,8%, VINX samnorræna vísitalan hækkaði um 3,5% og FTSE í Bretlandi um 4,4%.

Eftir þessa viku og góð uppgjör stórfyrirtækja á öðrum ársfjórðungi eru menn almennt bjartsýnir á að viðsnúningur sé hafinn og þar með botninum náð.

 

Skuldabréf

Áframhaldandi lækkun var á ríkistryggðum skuldabréfum síðastliðna viku. Verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,13% og óverðtryggð lækkuðu um 0,78%. Fimmtudaginn 16. júlí var fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands birt.

Úr fundargerðinni má lesa að frekari vaxtalækkanir séu ólíklegar ef ekki komi til verulegrar styrkingar krónunnar. Fátt virðist því benda til vaxtalækkunar á næsta vaxtaákvörðunardegi sem er 13. ágúst.

Útboð ríkisbréfa fór fram síðastliðinn föstudag.  Er skemmst frá því að segja að afar lítil þátttaka var í útboðinu og var öllum tilboðum hafnað.

 

 

Krónan

Samkvæmt opinberu viðmiðunargengi SÍ var gengisvísitala íslensku krónunnar föstudaginn 10. júlí 232,9 en 231,9 föstudeginum eftir. Krónan hafði því styrkst um 0,41% frá föstudegi til föstudags.

Niðurstöðu viðræðna milli kröfuhafa föllnu bankanna og ríkisins vegna endurskipulagningar bankakerfisins á Íslandi var beðið með mikilli eftirvæntingu en FME hafði gefið aðilum frest til 17. júlí til að ná samkomulagi.

Þann 20. júli var niðurstaðan kynnt þar sem kom fram að íslenska ríkið þyrfti að öllum líkindum að setja minna fjármagn í bankana en upphaflega var ráðgert.  Ennfremur kom fram að kröfuhöfum verður boðin aðkoma að Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi.

Eins og kunnugt er var samþykkt á Alþingi þann 16. júlí að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB. Fyrirfram var vonast til að aðildarumsóknin ásamt samkomulagi um endurskipulagningu bankakerfisins myndi hafa jákvæð áhrif á krónuna en hún hefur lítið hnikast.

Ljóst er að erlendir aðilar hafa áhyggjur af framvindu Icesave málsins ásamt því að AGS hefur ekki enn greitt út annan hluta lánsins. Þessar áhyggjur endurspeglast berlega á aflandsmarkaðnum en gengi íslensku krónunnar gagnvart evru er í kringum 220 og hefur lítið breyst að undanförnu.