Markaðsfréttir 14.-18. júlí 08

Vikan 14. – 18 júlí 2008

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) lækkuðu um 0,59% í vikunni. Viðskipti á markaði eru fá og velta mjög lítil. Í síðustu viku hækkuðu fjögur félög í OMXI15 vísitölunni en mest hækkuðu Icelandair um 0,91% og Landsbankinn um 0,44%. Teymi lækkaði mest allra félaga, um 23,08% og Atorka um 8,17%.  Í vikunni náði markaðurinn enn og aftur sínu lægsta gildi frá áramótum. Vikan byrjaði á því að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti aðgerðir til að styðja við íbúðalánabankana Fannie Mae og Freddie Mac en þær aðgerðir dugðu ekki til að róa markaðinn.  Um miðja viku birtu stærstu bankar Bandaríkjanna uppgjör sín og voru þau mun betri en greinendur höfðu spáð.  Markaðir um allan heim snéru við og náðu til baka hluta af þeirri lækkun sem hafði orðið vikurnar á undan.  Fleiri fyrirtæki fylgdu í kjölfarið og bundu menn vonir við að þetta þýddi að botninum væri náð.  Síðustu uppgjör hafa þó valdið vonbrigðum svo að ekki er víst að menn reynist sannspáir hvað botninn varðar.  

Skuldabréf

Velta á skulda bréfamarkaði nam um 70 milljörðum. Krafa allra verðtryggðu bréfanna nema HFF24 lækkaði í vikunni.  Krafa styttri ríkisbréfa lækkaði einnig en krafa lengri bréfa var að mestu óbreytt.  Greiningardeildir hafa verið að lækka verðbólguspár fyrir júlí en vænta þess ekki að það dragi úr verðbólgu fyrr en á fjórða ársfjórðungi þar sem krónan hefur veikst töluvert síðustu misseri.Íbúðalánasjóður tilkynnti á föstudaginn um aðgerðir til stuðnings fjármálafyrirtækjum, einn liður í þeim aðgerðum er að frumvarp þess efnis að Íbúðalánasjóði verði heimilt að kaupa og fjármagna ný lán af fjármálafyrirtækjum.  Markmiðið er að leggja þetta frumvarp fram í byrjun september.  Þessi aðgerð mun auka framboð verðtryggðum húsnæðisbréfum sem mun þrýsta kröfu þessara bréfa upp á við á haustmánuðum.

Krónan

Krónan veiktist um 1,8% í vikunni og endaði gengisvísitalan í 159,5 föstudaginn 18. júlí. Miklar sveiflur eru á gengi krónunnar og verður svo væntanlega eitthvað áfram á meðan áhættufælni er mikil. Gengi krónunnar, rétt eins og gengi annarra hávaxtamynta stýrist að miklu leiti af áhættufælni á alþjóðlegum mörkuðum. Krónan veiktist alla fimm daga vikunnar en þónokkrar sveiflur voru þó innan dags. Vísitalan sveiflaðist milli 155,7 og 161,07 og heildarvelta á gjaldeyrismarkaði var um 263,6 milljarðar ISK í síðustu viku. Óvissan á alþjóðlegum mörkuðum heldur krónunni veikri og lánsfjárkreppan hefur meðal annars þau áhrif að gjaldeyrisflæði til Íslands er í lágmarki og krónan helst þar af leiðandi veik. Þrátt fyrir að krónan sé ódýr og skortur á krónum í umferð þá munu alþjóðlegir vindar feykja henni til og frá. Þó er líklegt þegar horft er fram á veginn í nokkra mánuði að krónan styrkist en ástandið er mjög brothætt og gæti snúist í veikingu án mikils tilefnis.