Markaðsfréttir 15.-19. júní 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.      

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 1,05% í vikunni.  Mikil deyfð var yfir markaðnum og voru viðskipti einungis fyrir 140 millj. kr.  Bakkavör skilaði hæst ávöxtun en hlutabréf félagsins hækkuðu um 20,6%. Hlutabréf Century lækkuðu mest. 

Innlendur hlutabréfamarkaður hefur gefið góða ávöxtun síðustu þrjá mánuði en frá 17. mars, þegar markaðurinn botnaði, hefur íslenska hlutabréfavísitalan hækkað um 31,5%.  Horfur á innlendum hlutabréfamarkaði eru óljósar.  Veruleg óvissa er um fjárhagslega stöðu og framtíð nokkurra félaga. 

Hins vegar hafa flest félög lækkað mjög mikið frá toppnum 2007 og er verð nokkurra enn nálægt sögulegu lágmarki.  Þau gætu því hækkað mikið ef óvissa um fjárhaglega stöðu þeirra minnkar.  Auk þessa bendir einföld tæknigreining til þess að markaðurinn sé í uppsveiflu. 

 

 

Erlend hlutabréf

Veruleg lækkun var á erlendum mörkuðum í síðustu viku og enduðu allir í lækkunum.  Því lækkaði heimsvísitalan um 3,0%.  Af stærri landsvísitölunum lækkaði FTSE í Bretlandi um 2,2%, DAX í Þýskalandi um 4,5%, Nikkei í Japan um 3,5% og S&P 500 í Bandaríkjunum um 2,6%. 

Norrænar vísitölur lækkuðu allar, OMX Copenhagen 20 lækkaði um 3,5%, OMX Helsink 25 um 6,1% og OBX Stockholm 30 um 2,7%. Svartsýni á erlendum hlutabréfamörkuðum hefur aukist nokkuð eftir góðan gang síðustu mánuði en það gæti verið ein af ástæðum lækkunar vikunnar. 

Hins vegar er verðlagning alþjóðlegra hlutabréfa fremur lág í sögulegu samhengi auk þess sem miklir fjármunir eru á “hliðarlínunni” og bíða eftir að fara í áhættusamari eignir eins og hlutabréf.  Það gæti því stuðlað að frekari hækkunum alþjóðlegra hlutabréfa.

 

 

Skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,1% í vikunni en óverðtryggð lækkuðu um 1,0%.  Verðbólguvæntingar fjárfesta hafa því aukist, einkum vegna óvissu um gengi krónunnar og vegna aðgerða í ríkisfjármálum sem hækka verðlag og ógna stöðu íslensks efnahagslífs. 

Mikil óvissa er á skuldabréfmarkaði.  Erlendir fjárfestar eiga um helming ríkisbréfa og ríkisvíxla.  Ljóst er að stór hluti þeirra mun losa þessar stöður þegar þeir geta.  Því hangir mikið framboð yfir markaðnum sem m.a. dregur úr kaupáhuga.

 

 

Krónan

Gengi krónunnar breyttist lítið í síðustu viku.  Krónan er því enn mjög veik og raungengi hennar nálægt sögulegu lámarki.  Ástæða þessa er sú að markaðsaðilar hafa ekki trú á henni enda mikil óvissa og áhætta fólgin í íslensku efnahagslífi. 

Óvissa um skuldsetningu íslenska ríkisins, óvissa um Icesave, möguleg lækkun lánshæfis íslenska ríkisins og erfiðleikar í samningum við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna valda mikilli óvissu.  Ólíklegt er að krónan nái “eðlilegum” styrk fyrr en þessi mál leysast.