Markaðsfréttir 16.-20. febrúar 2009

Vikulega birtir Íslensk verðbréf hf. samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.isVikulega birtir Íslensk verðbréf hf. samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.is

 


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 10,6% í vikunni. Bakkavör var eina félagið sem hækkaði í vikunni, um 1,6%. Straumur lækkaði hinsvegar mest, um 25,9%, Century Aluminum um 20,7%, og Alfesca 14,5%.

Verð hlutabréfa í öðrum félögum breyttist minna. Velta með hlutabréf í íslensku vísitölunni (OMXI6ISK) var samtals 1.940 milljónir í síðustu viku og minnkaði lítillega frá fyrri viku. Sem fyrr var mest velta með bréf Straums 1.268 milljónir, velta með bréf Össurar 359 milljónir og bréf Marels 304 milljónir. Sáralítil velta var með önnur félög.



Erlend hlutabréf

Heimshlutabréfavísitala MSCI lækkaði um 7,7% í vikunni, S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 6,9%, DAX vísitalan í Þýskalandi lækkaði um 9%, Nikkei í Japan lækkaði um 4,7% og breska FTSE vísitalan lækkaði um 7,2%.

Erfitt er að spá í spilin en breytingar á gjaldmiðlum geta gefið sterk merki. Sænska krónan veiktist töluvert og eru miklar lánveitingar sænskra banka til Austur-Evrópu líklegur áhrifavaldur.  Jenið gaf mikið eftir og er orsök þess miklar skuldir Japanska ríkisins auk hruns í útflutningi og iðnaðarframleiðslu japanskra fyrirtækja.

Þess ber að geta að skuldatryggingarálag japanska ríkisins hefur meira en tvöfaldast á einum mánuði. Staða svissneska bankakerfisins  er undir smásjánni og gæti versnandi staða þar valdið hruni á frankanum. Ljóst má vera að margt á eftir að gerast áður en hlutabréfaverð fer að snúa, og ekki ráðlagt að kaupa þrátt fyrir hagstæða verðlagningu.

 


Skuldabréf

Töluverð lækkun var á verði ríkistryggðra skuldabréfa í vikunni, verðtryggð bréf lækkuðu um 2,27% og óverðtryggðu bréfin lækkuðu um 2,58%. Krafan hækkaði á öllum bréfum nema á RIKB 10 1210 og minnkaði því nokkuð skekkja á verðlagningu RIKB 10 0317 en sá flokkur er mikið í eigu útlendinga og skökk verðlagning.

Helsta ástæða hækkunar á ávöxtunarkröfu er sú skoðun fjárfesta að lengra sé í vaxtalækkun en áður var talið og vaxandi ótti við verðhjöðnun hefur hækkað ávöxtunarkröfu verðtryggðra bréfa meira en óverðtryggðra.



Krónan

Krónan styrktist um 2,67% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 188,74 stigum. Sænska krónan veiktist mest á móti íslensku krónunni, um 5,26% og þar næst japanskt jen 3,24%.

Bandaríkjadalur veiktist minnst eða um 0,62%. Versnandi ástand í mörgum af stærri hagkerfum heimsins veldur því að gjaldmiðlar þeirra gefa eftir.  Þetta á ekki síst við um gjaldmiðla sem hafa veikst undanfarin misseri. Slíkt gæti verið ein ástæða þess að USD sækir í sig veðrið á móti öllum helstu gjaldmiðlunum.