Markaðsfréttir 16.-20. júní

Vikan 16.-20. júní 2008

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) hækkuðu um 1,64% í vikunni eftir töluverðar lækkanir í vikunum þar á undan. Það var Bakkavör sem hækkað mest eða um 7,33% og Kaupþing hækkaði um 3,31%. Það var hins vegar Spron sem fór verst út úr vikunni með rúmlega 5% lækkun og Eimskip með rúmlega 2% lækkun. Viðskiptamagnið er áfram mjög lítið og ljóst að það er mikil svartsýni í gangi á markaðinum. Framhaldið er í óvissu og ljóst að svartsýni ásamt erfiðu aðgengi að lánsfé verður dragbítur hlutabréfamarkaðarins eitthvað áfram.

Skuldabréf

Það var áfram mikil velta á skuldabréfamarkaði og lækkuðu verðtryggð bréf um 1,55% í vikunni og óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,65%. Ástæða þessarar lækkunar er útspil ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að halda fasteignamarkaðinum á floti. Það hefur væntanlega í för með sér aukið framboð af íbúðabréfum. Til viðbótar ætlar ríkissjóður að gefa út 75 milljarða af ríkisbréfum og eykur þar með verulega framboð óverðtryggðra bréfa á markaðinum. Það er trúlegt að krafa verðtryggðra bréfa haldi áfram að gefa eftir á næstu vikum en það ræðst þó af verðbólguvæntingum og hversu mikil aukning verður á framboð íbúðabréfa.

Krónan

Krónan veiktist um 2,54% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ. Þetta er mikil veiking og ljóst að fjárfestar þora ekki að taka stöðu með krónunni enda kannski ekki áhugavert þegar svo mikil óvissa ríkir auk þess sem vaxtamunurinn er ekki til staðar. Á móti kemur að það hefur sjaldan verið ódýrara að taka stöðu gegn krónunni. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast ekki hafa haft jákvæð áhrif á krónuna og bíða fjárfestar þess að erlenda lánið líti dagsins ljós. Til viðbótar er ljóst að það eru töluvert miklir hagsmunir í því fyrir stóru bankana að krónan verði veik um mánaðarmótin.