Markaðsfréttir 18. - 22. ágúst

Vikan 18.-22.  ágúst, 2008

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) lækkuðu um 2,68% í vikunni. Það voru aðeins tvö félög sem hækkuð í vikunni, en það var annars vegar Icelandair sem hækkaði um 11,3% og hins vegar Eimskip með 0,35% hækkun.  Á hinum endanum voru það Spron sem lækkaði mest eða um 12,41% og Exista sem lækkaði um 11,45%. Hlutabréfamarkaðurinn byrjaði vel í ágúst og hækkaði þrjár vikur í röð en er nú farinn að gefa eftir. Ástæðurnar eru sem fyrr háir vextir á skammtímarkaði og erfitt aðgengi að lánsfjármagni.

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um 0,4% í vikunni og óverðtryggðu bréfin hækkuðu um 0,66%. Óverðtryggðu bréfin hafa gefið mun betur í ágúst mánuði en þau verðtryggðu og við teljum líklegt að svo verði áfram. Það eina sem getur komið í veg fyrir það eru versnandi verðbólguhorfur. Við reiknum með að það verði töluverð verðbólga næstu tvo mánuði en ef krónan heldur þá ætti að draga nokkuð hratt úr verðbólgunni eftir það.

Krónan

Krónan styrktist um 0,3% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 157,2593 stigum. Þetta er smávægileg styrking eftir töluverða styrkingu í vikunni á undan. Við teljum ólíklegt að krónan styrkist eitthvað að ráði fyrr en septembermánuður er að baki þar sem stórir gjalddagar jöklabréfa eru í mánuðinum.