Markaðsfréttir 19.-23. janúar 2009

Innlend hlutabréf Hlutabréf héldu áfram að sveiflast í vikunni. Bakkavör hækkaði mest, um 6,22%.

Innlend hlutabréf

Hlutabréf héldu áfram að sveiflast í vikunni. Bakkavör hækkaði mest, um 6,22%.

Straumur sem hækkaði mest í vikunni á undan lækkaði mest í síðustu viku, um 8,21%.   Önnur félög voru með mun minni breytingar og endaði OMXI6ISK vísitalan í 3,65% lækkun.  Líkt og í síðustu viku var lítil velta á hlutabréfamarkaði.  Mestu viðskipti voru með bréf í Össur, Straumi og Marel.  Áhætta samfara kaupum á innlendum hlutabréfum er mikil og því kjósa fjárfestar að hafa sína peninga í áhættuminni eignaflokkum. Hinsvegar eru enn áhugaverðir fjárfestingarkostir á markaðinum og má þar nefna Marel og Össur.

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf lækkuðu í vikunni og lækkaði heimsvísitala MSCI um 7,2% í vikunni. Hafa þau lækkað um 10,3% frá áramótum og um 43% á einu ári.  S&P 500 lækkaði um 4,57% og DAX vísitalan í Þýskalandi um 9,88%. Evrópa er að sogast inn í kreppuna af auknum krafti. Bankar í Evrópu lækkuðu mikið og sem dæmi þá hefur Barclays lækkað um 47,8% í vikunni og 66,2% frá áramótum. Mikli óvissa er að myndast um Evrópusambandið og ljóst að sum ríki sambandsins eru að kikna undan sterkri evru. Þetta setur pressu á verð hlutabréfa í álfunni.

 

Skuldabréf

Bæði verðtryggð og óverðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um tæpt prósent í vikunni. Svo virðist sem ákveðin viðsnúningur sé að eiga sér stað. Ástæður þess eru líklega væntingar um vaxtalækkanir í kjölfar endurskoðunar á efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í febrúar næstkomandi.  Verðtryggði vaxtaferillinn hliðraðist niður en sá óverðtryggði breyttist lítið. Verðbólguálag til sex ára er mjög hátt eða um 6,3% og er líklegt að það minnki. Það veltur hinsvegar á þróun krónunnar.   

 

Krónan

Krónan styrktist um 4,18% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 210,82 stigum. Svo virðist sem umræðan um að erlendur gjaldeyrir útflytjenda skili sér seint og illa heim hafi haft áhrif til styrkingar í vikulok. Þróun einstakra gjaldmiðla gagnvart krónu var mjög mismunandi, breskt pund gaf eftir um 9,9%, dollar um 0,89%, evra um 4,31%, en japanskt jen styrktist um 1,78%. Er umrædd þróun skýrt dæmi um áhættufælni fjárfesta. Krónan er mjög veik nú um stundir,  en líklega mun hún ekki styrkjast fyrr en lausn er fundin á skammtímatöku erlendra fjárfesta hér á landi og einnig að land og þjóð nái betri tökum á vandamálunum.