Markaðsfréttir 2.-6. febrúar

Innlend hlutabréfInnlenda hlutabréfavísitalan OMXI6 hækkaði um 2,53% í vikunni. Straumur hækkaði mest, um 15,48%.

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6 hækkaði um 2,53% í vikunni. Straumur hækkaði mest, um 15,48%.

Marel lækkaði hinsvegar mest, um 5,9%. Velta með hlutabréf á íslenska markaðinum var samtals 1412 milljónir í síðustu viku og er heldur að aukast. Áframhaldandi óvissa er með með einstök félög á markaðinum.

Bakkavör hefur nú náð að taka út 104 milljónir punda af reikningi félagsins hjá Nýja Kaupþingi banka en upphafleg fjárhæð nam 150 milljónum punda. Þetta hefur mjög jákvæð áhrif á lausafjárstöðu félagsins.

Eimskip og Straumur skiluðu nýverið slæmum uppgjörum og töpuðu bæði félögin í kringum 100 milljörðum á árinu 2008. Össur skilaði einnig uppgjöri og jókst hagnaður ársins um 276% og nam hann 28,5 milljónum USD. Össur hefur bætt rekstur sinn jafnt og þétt undanfarin misseri.

 

Erlend hlutabréf

Heimshlutabréfavísitala MSCI hækkaði um 3,8% í vikunni en hefur lækkað um 5,38% frá áramótum. Í vikunni hækkaði S&P 500 um 5,17%, DAX vísitalan í Þýskalandi hækkaði um 7,06%, Nikkei í Japan hækkaði um 1,03% og breska FTSE vísitalan hækkaði um 3,43%.

Framkvæmdastjóri IMF segir að stærstu iðnríki heimsins séu komin í kreppu, en undir niðri hefur þetta verið viðkvæmt umræðuefni.

 

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf lækkuðu um 3,6% í vikunni en óverðtryggðu bréfin hækkuðu um 1,3%. Lækkaði því verðbólguálagið og er það nú um 3,5% til 6 ára. Fjárfestar vænta minni verðbólgu en væntingar þeirra stóðu til í upphafi árs sem og minni lækkun vaxta.

Styrking krónunnar, lækkandi fasteignaverð og minnkandi innlend eftirspurn eru stærstu áhrifaþættir á verðbólgu nú um stundir. Verðbólguálagið er of lágt til skemmri tíma og ástæða þess er að erlendir fjárfestar hafa keypt mikið af stuttum verðtrygggðum bréfum og þau því hækkað mikið í verði.

Ekki er ólíklegt að leiðrétting geti orðið, sér í lagi ef útlendingar fá möguleika á að færa fé sitt úr landi. Möguleikar á úttektir á séreignarsparnaði getur breytt myndinni en miklar útborganir geta leitt til söluþrýstings á ríkisskuldabréf og þar með verðlækkun þeirra.

 

Krónan

Krónan var óbreytt í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 192,23 stigum. Þróun einstakra gjaldmiðla gagnvart krónu var mjög mismunandi. Minnkandi áhættufælni varð vart í vikunni sem endurspeglast í því að japanskt jen veiktist um 1,85% og svissneskur franki 1,31%.

Breskt pund styrktist um 2,92%. Aðrar myntir breyttust mun minna. Sú togstreita sem er um seðlabankastjórana hefur áhrif til aukinnar áhættufælni gagnvart Íslandi og hefur þannig bein áhrif á gjaldeyrismarkaði.