Markaðsfréttir 20.-24. júlí 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 1,0% í vikunni. Af skráðum hlutafélögum hækkaði Eik banki mest, um 8,2% og Century Aluminum um 6,7%.

Mest lækkuðu bréf Marels um 5,7% og Icelandair Group um 4,8%. Velta með hlutabréf jókst frá síðustu viku og var um 325 milljónir króna. Þar af voru mestu viðskipti með Alfesca um 168 milljónir og með Marel 126 milljónir.


Erlend hlutabréf

Aðra vikuna í röð hækkuðu helstu vísitölur í heiminum og áfram ríkir bjartsýni um að botninum sé náð.

Stærri landsvísitölur hækkuðu allar í vikunni og nam hækkun DAX í Þýskalandi 3,96%, FTSE í Bretlandi um 2,99%, CAC í Frakklandi um 2,92%, Dow Jones um 2,77%, S&P 500 um 2,65%, Hang Seng í Kína um 2,46% og VINX samnorræna vísitalan hækkaði um 4,56%.


Skuldabréf

Skuldabréf tóku að hækka fyrri hluta vikunar í kjölfar frétta af endurfjármögnun ríkisbankanna, samningsdraga við erlenda lánadrottna og hugsanlegra aðkomu þeirra að eignarhaldi. Hins vegar dró úr hækkunum seinni part vikunnar meðal annars vegna óvissu varðandi Icesave.

Markaðsaðilar bíða spenntir eftir útkomu Icesave samkomulagsins en líklega þurfa þeir að bíða fram yfir verslunnarmannahelgi eftir þeim fréttum. Menn búast því við litlum sveiflum þessa vikuna.

Í heild lækkuðu vísitölur verðtryggðra skuldabréfa um 0,041% í vikunni á meðan vísitölur óverðtryggðra skuldabréfa hækkuðu um 0,96%.


Krónan

Samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans var gengisvísitala krónunnar 231,49 föstudaginn 24. júlí s.l.  Lítil breyting var á gengi krónunnar í vikunni en hún styrktist þó um 0,2%.

Litlar breytingar hafa verið á gengi krónunnar síðustu vikur – og frá miðjum júní hafa í raun sáralitlar breytingar verið á gengisvísitölunni.  Því má segja að nú sé kominn nokkur stöðugleiki – sem er líklega tímabundinn – á íslenskum gjaldeyrismarkaði.  Líklegt er að sá stöðuleiki vari áfram næstu vikur.

Í samræmi við litlar breytingar á gengi krónunnar þá er flökt hennar núna í lágmarki.  Mánaðarlegt flökt hennar er nú einungingis 7,9% en það hefur ekki verið svo lágt síðan í október 2007. 

Að meðaltali hefur flökt krónunnar verið 11,4% frá ársbyrjun 1999 svo að ljóst er að gengissveiflur eru nú í lágmarki.  Hæst var gengisflökt krónunnar í október 2008 en þá var það tæplega 140%.