Markaðsfréttir 22. - 26. júní 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.



Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 1% í vikunni. Af skráðum hlutafélögum í kauphöllinni hækkaði ekkert félag, en af félögum sem viðskipti voru með lækkaði Færeyjarbanki minnst, um 1,22%.

Mesta lækkun var á bréfum Eimskips, 28,6% og Century Aluminum, um 4,8%. Veltan var um 214 milljónir króna og virðist lágdeyða undanfarinna vikna vera að festast í sessi.

Félögum mun enn fækka á markaðinum ef hluthafar Alfesca taka yfirtökutilboði sem nú hefur verið kynnt. Tilboðsverð er 4,5 kr. á hlut sem er nokkru hærra en viðskipti með bréf félagsins undanfarna mánuði. Síðasta verð í kauphöllinni var 4,2.     

 

 

Erlend hlutabréf

Helstu hlutabréfamarkaðir lækkuðu í vikunni og nam lækkun heimshlutabréfavísitölu MSCI 3%. Af stærri landsvísitölunum lækkaði DAX í Þýskalandi um 4,5%, Nikkei í Japan um 3,4%, S&P 500 í Bandaríkjunum um 2,6% og FTSE í Bretlandi um 2,2%.

Samnorrænu VINX Benchmark vísitalan lækkaði um 4,8%. Lækkun í flestum tilfellum var í fyrrihluta vikunnar en markaðir snéru um miðja viku.

Ýmsir telja að botni lausafjárkrísunnar sé náð og framundan sé hægfara bati. Aðgerðir seðlabanka um allan heim sem fólust fyrst og fremst í miklum vaxtalækkunum og mikilli aukningu á lausafé í umferð virðast vera að bera árangur.

Sem dæmi þá jókst iðnaðarframleiðsla í Japan þriðja mánuðinn í röð og eru mörg þarlend iðnfyrirtæki byrjuð að byggja upp birgðir á nýjan leik. Hrávöruverð hefur farið hækkandi þrátt fyrir miklar birgðir t.d. á áli.

  

 

Skuldabréf

Ríkistryggð skuldabréf lækkuðu í vikunni.  Verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,41% og óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 3,08%. Seðlabanki Íslands tilkynnti í vikunni að þeir ætluðu að selja verulegt magn af ríkistryggðum skuldabréfum.

Þessi tilkynning hafði þau áhrif að skuldabréf lækkuðu hratt í verði þar sem þessi bréf eru veruleg viðbót við framboð ríkistryggðra bréfa.

Markaðurinn er kvikur þar sem töluvert magn spákaupmanna er á honum og þeir brugðust hart við þessum upplýsingum. Þetta útspil seðlabankans hefur því haft skaðleg áhrif á fjármögnun ríkisins til skemmri tíma þar sem dýrara verður fyrir ríkið að fjármagna sig í næsta útboði en það verður 9. júlí n.k.

Óverðtryggð bréf lækkuðu meira en þau verðtryggðu þar sem verðlag hækkar meira en ætlað var. Skýringin á því er fyrst og fremst aðgerðir ríkisins í skattamálum en þær fara hratt út í verðlagið.

 

 

Krónan

Krónan styrktist um 0,4% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 231,2 stigum. Síðustu tvær vikur hefur gengisfall krónunnar stöðvast og lítilsháttar styrking átt sér stað.

Eftir sem áður hefur engri óvissu verið eytt um skuldastöðu þjóðarinnar,  greiðslugetu, krónu eignir útlendinga og viðhorfi erlendra fjárfesta til nýju bankanna. Enn er beðið afgreiðslu lána frá AGS og þeim þjóðum sem gefið hafa vilyrði til að lána fé til Íslands.

Meðan lítið sem ekkert þokast í ofangreindum málum verður óvissan til staðar, fjárfestar forðast Ísland og lengri tími líður þar til krónan getur hafið styrkingarferli í átt að jafnvægisgengi sínu.