Markaðsfréttir 23.-27. febrúar 2009

Vikulega birtir Íslensk verðbréf hf. samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.isVikulega birtir Íslensk verðbréf hf. samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.is

 


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 0,13% í vikunni. Alfesca hækkaði langmest, um 13,85%, Marel um 1,8% og Bakkavör um 1,05%. Önnur félög sem viðskipti voru með lækkuðu og Eimskip mest eða um 38,89% og Century Aluminum um 20,06%.

Þess ber að geta að veltan var víða mjög lítil og fá viðskipti á bak við verðbreytingar. Velta með hlutabréf í íslensku vísitölunni (OMXI6ISK) var samtals 1.162 milljónir í síðustu viku og minnkaði um nær helming frá fyrri viku.

Sem fyrr var mest velta með bréf Straums, 477 milljónir, velta með bréf Össurar 411 milljónir og bréf Marels 262 milljónir. Sáralítil velta var með önnur félög.

 

Erlend hlutabréf

Heimshlutabréfavísitala MSCI lækkaði um 2,84% í vikunni, S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 4,54%, DAX vísitalan í Þýskalandi um 4,26%, Nikkei í Japan um 2,05% og breska FTSE vísitalan lækkaði um 1,52%.

Frá áramótum hefur Heimshlutabréfavísitala MSCI lækkaði um 18,41% og S&P 500 um 18,62%. S&P 500 hefur lækkað um 53% frá því markaðurinn náði hámarki í október 2007.

Þetta er mesta lækkun vísitölunnar frá árinu 1929. Ekkert bendir til viðsnúnings á hlutabréfamörkuðum, vandamál eru víða vaxandi og kreppan er enn að dýpka.

 

Skuldabréf

Töluverð breyting var á verði ríkistryggðra skuldabréfa í vikunni, verðtryggð bréf lækkuðu um 2,16% en óverðtryggðu bréfin hækkuðu um 0,85%. Ástæðan er mun minni hækkun á vísitölu neysluverðs en fjárfestar reiknuðu með.

Við teljum töluvert miklar líkur á að það verði verðhjöðnun einstaka mánuði í sumar og haust. Ennfremur eru markaðsaðilar farnir að reikna með að verðlag hækki óverulega á árinu 2010. Á móti kemur að með lækkandi verðbólgu aukast líkurnar á stýrivaxtalækkun SÍ.

 


Krónan

Krónan styrktist um 0,95% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 186,95 stigum. Japanskt jen veiktist mest á móti íslensku krónunni um 4,33% og þar næst sænsk króna 3,9%.

Af helstu gjaldmiðlum styrktist aðeins svissneskur franki á móti krónu, um 0,31%. Velta á gjaldeyrismarkaði er mjög lítil og hefur Seðlabankinn fulla getu til að stýra genginu að vild meðan gjaldeyrishöftin eru í gildi.