Markaðsfréttir 25.-29. ágúst.

Vikan 25.-29. ágúst 2008

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) lækkuðu um 0,85% í vikunni. Það voru aðeins tvö félög sem hækkuðu í vikunni, en það var annars vegar Teymi sem hækkaði um 15,26% og hins vegar Icelandair sem hækkaði um 1,26%.  Á hinum endanum voru það Straumur sem lækkaði mest eða um 2,35% og Glitnir sem lækkaði um 1,63%. Ágústmánuður byrjaði vel með hækkunum fyrstu tvær vikurnar en lækkunum eftir það og endaði mánuðurinn í hækkun um 2,21%. Ástæðurnar eru sem fyrr háir vextir á skammtímarkaði og erfitt aðgengi að lánsfjármagni.

Skuldabréf

 Lítilsháttar hækkun var á verði ríkistryggðra skuldabréfa í vikunni. Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,18% á meðan óverðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um 0,15%. Óverðtryggðu bréfin gáfu mun betri ávöxtun í ágúsmánuði (1,79%) en þau verðtryggðu (0,28%). Helsta skýring þessa er að verðbólguvæntingar fara minnkandi, þó svo að verðbólgan virðist ætla að haldast há lengur en flestar spár gerðu ráð fyrir.

Krónan

Krónan veiktist um 1,04% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 158,9 stigum. Flökt á gengi krónunnar minnkaði mikið í ágúst miðað við mánuðina á undan og undanfarnar  4 vikur og hefur krónan sveiflast á tiltölulega þröngu bili. Gengið hefur þó frekar verið að gefa eftir, en erfitt er að spá fyrir um framhaldið. Mikið framboð hefur verið af  neikvæðum fréttum undanfarið, bæði hér heima og erlendis og dregur það undan hávaxtamyntum.