Markaðsfréttir 25. – 29. maí 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þú getur skráð þig á póstlista hjá Íslenskum verðbréfum og fengið tilkynningu þegar nýjar markaðsfréttir berast. 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þú getur skráð þig á póstlista hjá Íslenskum verðbréfum og fengið tilkynningu þegar nýjar markaðsfréttir berast. 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 4,2% í vikunni. Af skráðum hlutafélögum í kauphöllinni hækkaði Alfesca mest, um 23,5% og Icelandair um 10,8%. Ekkert félag lækkaði, Færeyjabanki stóð í stað og minnsta hækkunin var á  Century Aluminum, eða 1,6%.

Velta nam 1,3 milljörðum og minnkar verulega. Mest viðskipti voru með bréf Alfesca, fyrir 771 milljón króna en væntingar eru um að formlegt yfirtökutilboð komi fram fljótlega. Ef það gengur eftir mun enn syrta í álinn á innlendum hlutabréfamarkaði.

 

 

Erlend hlutabréf

Helstu hlutabréfamarkaðir hækkuðu í vikunni og nam hækkun heimshlutabréfavísitölu MSCI 3%. Af stærri landsvísitölunum hækkaði S&P 500 í Bandaríkjunum um 3,6%, Nikkei í Japan um 3,2%, FTSE í Bretlandi um 1,2% og DAX í Þýskalandi hækkaði um 0,5%.

Hinsvegar lækkaði samnorræna VINX Benchmark vísitalan um 1,3%. Þrátt fyrir það hefur hún hækkað um tæp 18% frá áramótum en t.d. S&P 500 hefur aðeins hækkað um 1,8%.  Heimsvísistalan hefur hækkað um 5,4%.

 

 

Skuldabréf

Töluverðar hræringar voru á markaði með ríkisskuldabréf í vikunni.  Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,82% en óverðtryggð skuldabréf lækkuðu hins vegar um 1,36%. Skýringuna má rekja til þess að verðbólgumælingin fyrir júní var mun hærri en væntingar stóðu til.

Helsta ástæðan var fasteignaliðurinn, en hann hækkaði þrátt fyrir að fasteignaverð sé á niðurleið. Næsti vaxtaákvörðunardagur er 4. júní og við reiknum nú með mun minni lækkun stýrivaxta en áður eða 100-150 punkta lækkun.

Ástæðuna má annars vegar rekja til mjög ákveðinna  yfirlýsinga frá fulltrúum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og hins vegar til hærri verðbólgu en reiknað var með.

 

 

Krónan

Krónan styrktist um 2,1% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 224,4 stigum. Krónan hefur veikst undanfarnar vikur sem rekja má til gjalddaga ríkisbréfa, en væntingar eru um minna útflæði af þeim sökum á næstunni.

Seðlabanki Íslands hefur hert á eftirliti með reglum um gjaldeyrisviðskipti. Einnig hefur Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sagt að vart verði höftunum aflétt nema í áföngum. Báðir þessir þættir munu leiða til aukins munar á innlendu og erlendu gengi krónunnar og samfara því mun hvati til að fara framhjá reglunum aukast.

Því er óljóst hvort krónan muni styrkjast og mun líklegra að hún sveiflist í kringum núverandi gengi. Forsenda fyrir sterkara gengi er öðru fremur aukið traust á íslenska hagkerfinu.

Margt þarf að koma til svo að slíkt megi verða s.s. að stofnefnahagur nýju bankanna líti dagsins ljós, að erlendir kröfuhafar finnist þeir hafa fengið sanngjarna meðhöndlun, að tekist verið á við ríkisfjármálin á trúverðugan hátt og að stór erlend fjárfestingaverkefni verði að veruleika á íslandi.