Markaðsfréttir 26.-30. maí

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) héldu áfram að lækka og nam lækkun vikunnar 1,67%. Þrjú félög hækkuðu og voru það Eimskip (3,48%) og SPRON (3,1%) sem hækkuðu mest.  Bakkavör  fór verst út úr vikunni með tæplega 7% lækkun. Oft hefur maí reynst erfiður á íslenska hlutabréfamarkaðinum og lækkaði hann um tæp 9 prósent að þessu sinni. Það sem háir markaðinum einna mest er að það vantar fjármagn til að koma honum af stað og það fjármagn virðist ekki vera í augsýn.

Skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf lækkuðu um tæp 1,9% í vikunni og óverðtryggð skuldabréf um 0,15%. Það var áfram mikil velta á skuldabréfamarkaði og fóru verðtryggð bréf illa út úr vikunni eftir miklar hækkanir vikurnar á undan. Það eru tvær megin ástæður fyrir þessu. Annars vegar reikna fjárfestar með að það dragi  hratt úr verðbólgu á næstu mánuðum þrátt fyrir að síðasta verðbólgumæling, sem birt var 26. maí, hafi sýnt hækkun um 1,37%. Hin ástæðan er sú að verulega hefur dregið úr eftirspurn þar sem fjárfestar telja kröfuna of lága sé horft til þess að stýrivextir eru 15,5%.

Krónan

Gengisvísitala krónunnar styrktist um 1,71% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ. Það sem helst kemur í veg fyrir frekari styrkingu krónunnar er að vaxtaskiptamarkaður með gjaldeyri er óvirkur og ljóst að hann kemst ekki í lag fyrr en fjármögnun stóru bankanna lagast. Næstu skref í lausn lánsfjárkrísunnar eru trúlega þau að Seðlabankinn nái samningum við seðlabanka EB og Bretlands um lánalínur og/eða að Íslenska ríkið selji skuldabréf í evrum á viðunandi kjörum. Gangi þetta eftir ætti það að hjálpa bönkunum í sinni fjármögnun.