Markaðsfréttir 27. apríl – 1. maí 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.isVikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.is

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 0,2% í vikunni. Af skráðum hlutabréfum í Kauphöllinni hækkaði Century Aluminum mest um 7,1%, Marel um 4,1% og Össur um 2,6%. Önnur félög lækkuðu og mesta lækkunin var á bréfum Færeyjabanka um 1,7% og Icelandair um 1,0%.

Velta nam einungis 467 milljónum og hækkaði lítillega frá fyrri viku. Sem fyrr byggðist veltan að mestu leyti á viðskiptum með bréf Marels og Össurar.

Áhugi er lítill á innlendum hlutabréfum og ekki má búast við auknum áhuga fyrr en vextir hafa lækkað verulega og óvissa um stöðu hagkerfisins hefur minnkað. Seðlabankinn vinnur að því að tengja saman erlenda fjárfesta sem eru með fjármagn sitt fast hér á landi og innlend fyrirtæki sem hafa erlendar tekjur en innlendan kostnað.

Ef allt gengur upp gætu innlend fyrirtæki og jafnvel skráð félög fengið fjármögnun til lengri tíma. Þannig ætti að draga verulega úr óvissu, en vænt útflæði gjaldeyris mun minnka.

Það gefur hagkerfinu aukin styrk, því það mun sýna að erlendir fjárfestar eru tilbúnir að taka stöðu með hagkerfinu. Óvissa er um það hvort fjárfestar eru tilbúir að fara þessa leið en það mun koma í ljós á næstunni.

 

Erlend hlutabréf

Heimshlutabréfavísitala MSCI hækkaði um 1,58% í vikunni. Nikkei í Japan hækkaði um 3,1%, breska FTSE vísitalan hækkaði um 2,1%, DAX vísitalan í Þýskalandi um 2,0% og S&P 500 í Bandaríkjunum um 1,3%.

Lækkunin frá áramótum er nær alveg gengin til baka á ofangreindum vísitölum, en Japan er hinsvegar komið í hækkun um 1,3%. Frá því að markaðir náðu lágmarki þann 9. mars sl. hefur heimsvísitalan hækkað um 34,0%.

Áhyggjur af hugsanlegu þroti bílaframleiðendans Chrysler virtist ekki hafa haft teljandi áhrif og ljóst er að slæmar fréttir hafa nú mun minni áhrif á markaði.

 

Skuldabréf

Skuldabréf héldu áfram að hækka s.l. viku. Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,35% en óverðtryggð skuldabréf gerðu enn betur og hækkuðu um 2,24%. Horfur á lækkun stýrivaxta eiga án efa stóran þátt í þessari þróun.

Einnig hafa inn- og útlánsvextir banka lækkað óháð stýrivaxtaákvörðunum sem sýnir glöggt væntingar um lækkandi vaxtastig. Verðbólguvæntingar virðast sömuleiðis stefna niður á við og endurspeglast það í aukinni ásókn í óverðtryggð skuldabréf.

 

Krónan

Krónan styrktist um 1,6% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 220,2 stigum. Af helstu myntum þá gaf japanskt jen mest eftir, eða um 3,4%, norsk króna 2,1% og svissneskur franki um 1,6%.

Þessar myntir hafa haft tilhneigingu til að styrkjast í óvissuástandi, en ástæða þess er að fjárfestar færa þá fé sitt í þessar myntir. Ástæða þessara færslna er að viðskiptajöfnuður er jafnan jákvæður í áðurnefndum löndum og þurfa þau því ekki að reiða sig á erlendar lántökur til að fjármagna halla.

Fréttir berast nú um það að Seðlabanki Íslands sé að ljúka vinnu sem mun gera erlendum fjárfestum sem eru fastir með fjármagn sitt hér á landi mögulegt að færa fjármagnið úr landi, en á lengri tíma. Sjá umfjöllun hér að ofan í kaflanum um innlend hlutabréf.

Árangur allra aðgerða sem höfða til erlendra fjárfesta ráðast líklega að verulegu leyti af áhættufælni fjárfesta almennt og þar með hvernig þeir telja að heimshagkerfið muni þróast. Því er líklegt að sú lausn sem boðið verði upp á muni gefa betri raun, haldi hækkanir á erlendum hlutabréfum áfram.