Markaðsfréttir 28.-31. júlí

Vikan 28.-31. júlí 2008

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) hækkuðu um 0,41% í vikunni eftir smávægilega lækkun í vikunum þar á undan. Það var Teymi sem hækkað mest eða um 13,16% og Exista hækkaði um 8,03%. Það var hins vegar Kaupþing sem fór verst út úr vikunni með 2,75% lækkun og Marel með 1,54% lækkun. Viðskiptamagnið var lítið eins og verið hefur síðustu mánuði.  Markaðurinn virðist vera í jafnvægi núna og hefur hægt á lækkunarferlinu sem verið hefur síðustu mánuði. Það er líklegt að markaðurinn verði erfiður næstu mánuði þar sem aðgengi að fjármgni er erfitt.

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um 0,04% í vikunni en óverðtryggð bréf hækkuðu hins vegar um 1,52%. Verðbólguálagið var orðið ansi hátt og er það reyndar ennþá og því var hér um verðleiðréttingu að ræða. Líklegt er að þessi þróun verði eitthvað áfram þar sem verðbólguálagið er mjög hátt. Stutt verðtryggð bréf ættu þó að halda sjó þar sem það verður töluverð verðbólga næstu þrjá mánuði þrátt fyrir lækkandi olíuverð og sterkari krónu.

Krónan

Krónan styrktist um 2,86% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 158,9515 stigum. Veiking vikunnar þar á undan er því öll komin til baka og rúmlega það.  Talsvert magn jöklabréfa eru á gjalddaga í ágúst og verður fróðlegt að sjá hvort eitthvað af þeim verði endurnýjuð. Vaxtamunur er ennþá óverulegur og því ólíklegt að erlendir fjárfestar endurnýji jöklabréfin. Þeir geta hins vegar náð vaxtamuninum með því að kaupa stutt óverðtryggð ríkisbréf eða innstæðubréf hjá SÍ. Það er því óljóst ennþá hvort að þetta hafi neikvæð áhrif á krónuna eða ekki.