Markaðsfréttir 29. júní – 3. júlí 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 1,4% í vikunni. Af skráðum hlutafélögum í kauphöllinni hækkaði Eimskip mest eða um 10% og Marel um 6%. Mest lækkuðu bréf Atlantic Petroleum, um 5,3% og bréf Bakkavarar um 4,2%.

Veltan var um 560 milljónir króna og skiptist að mestu á Marel, Össur og Færeyjarbanka. Það eru einmitt þau félög sem standa hvað best af skráðum félögum og ættu að geta myndað grunn undir aukin hlutabréfaviðskipti og fjölgun félaga í Kauphöllinni.     

 

 

Erlend hlutabréf

Helstu hlutabréfamarkaðir lækkuðu í vikunni og nam lækkun heimshlutabréfavísitölu MSCI 1,8%. Af stærri landsvísitölunum lækkaði S&P 500 í Bandaríkjunum um 2,4%, DAX í Þýskalandi um 1,8%, Nikkei í Japan um 0,6%, og FTSE í Bretlandi um 0,1%. Samnorræna VINX Benchmark vísitalan hækkaði hins vegar um 0,8%.

Ástæður almennra lækkana á hlutabréfum má rekja til aukins atvinnuleysis víða um heim og minnkandi kaupmáttar og kaupáhuga almennings. Slíkt dregur úr tekjum fyrirtækja og er búist við að almennt muni draga úr hagnaði á öðrum fjórðungi ársins.

Líklegt er að olíufyrirtæki skili auknum hagnaði fyrir sama tímabil en olía hækkaði um 30% á öðrum fjórðungi ársins. Hlutabréfamarkaðir gætu verið að sigla inn í tímabil sveiflna sem einkennast af viðbrögðum við fréttum og hagnaðartöku fjárfesta.

Til að markaðir nái sér á strik þarf neysla almennings í hinum stærri iðnvæddu ríkjum heimsins að komast af stað og þannig auka framleiðslu og fjárfestingu fyrirtækja.  

  

 

Skuldabréf

Almenn lækkun varð á verði ríkistryggðra skuldabréfa.  Verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,85% og óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 3,46%. Skýringuna má rekja til þess að SÍ hélt vöxtum óbreyttum og gaf jafnframt í skyn að vextir yrðu ekki lækkaðir nema að krónan myndi styrkjast og gætu hækkað aftur ef mál myndu þróast til verri vegar.

Ríkisstjórnin hefur verið dugleg við að ýta verðlaginu upp með skattahækkunum og því lækka verðtryggðu bréfin minna en þau óverðtryggðu. Umræðan í þjóðfélaginu hefur ennfremur verið á þá lund að landið stefni hraðbyri í gjaldþrot og ljóst að slíkt óábyrgt hjal er ekki til að bæta stöðu ríkistryggðra bréfa.

 

 

Krónan

Krónan styrktist um 0,9% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 229 stigum. Í júnímánuði var töluvert um inngrip af hálfu Seðlabanka Íslands og seldi hann gjaldeyri fyrir 2,5 milljarða.

Mætti draga þá ályktun að gengisvísitala hærri en 230 stig sé bankanum ekki þóknanleg. Afgangur af viðskiptum við útlönd skilar sér ekki inn á gjaldeyrismarkaðinn til að styðja við krónuna, heldur safnast hann upp á gjaldeyrisreikningum í íslensku bönkunum.

Einnig eru viðskipti lítil og dýpt lítil á millibankamarkaði með krónur. Til að auka skilvirkni markaðarins og reyna að styðja við krónuna væri hægt að setja á söluskyldu á gjaldeyri fyrir krónur í stað skilaskyldu og einnig að skylda þá sem þurfa að eiga viðskipti með gjaldeyri yfir ákveðinni upphæð að fara í gegnum markaðinn með þær.