Markaðsfréttir 4. – 8. maí 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.is

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.is

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 4,2% í vikunni. Af skráðum hlutabréfum í kauphöllinni hækkaði Atlantic Petroleum mest um 129,0%, Century Aluminum um 71,2% og Bakkavör um 54,0%. Bréf Alfesca lækkuðu mest, um 12,1% og Icelandair um 9,1%. Velta nam 859 milljónum og nær tvöfaldaðist milli vikna. Sem fyrr var mest velta með bréf Marels og Össurar.

Markaðurinn einkennist nú af öfgafullum sveiflum en slíkt er fylgifiskur þess að verðmyndun er ófullkomin. Með lækkandi vöxtum og minni áhættufælni ætti áhugi að aukast á hlutabréfamarkaðinum.

Óvissa í kringum einstök félög hefur einnig veruleg áhrif og má þar nefna óvissu um eignarhald á Alfesca og fjármögnun Bakkavarar.  

 

 

Erlend hlutabréf

Heimshlutabréfavísitala MSCI hækkaði um 6,4% í vikunni, Nikkei í Japan hækkaði um 5,1%, breska FTSE vísitalan hækkaði um 5,2%, DAX vísitalan í Þýskalandi um 3,0% og S&P 500 í Bandaríkjunum um 5,9%. Frá áramótum hefur heimsvísitalan hækkað um 3,6%. Verðgildi vísitölunnar er 39,1% lægra en frá 52 vikna toppi en þó 39,4% hærri en lægsta gildir hennar á einu ári.

Búast má við að það dragi úr hækkunum á hlutabréfaverði í heiminum og við taki nokkuð láréttur kafli þar til frekari bati á heimshagkerfinu næst.  

 

 

Skuldabréf

Skuldabréf héldu áfram að hækka s.l. viku. Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 3,49% en óverðtryggð skuldabréf gerðu enn betur og hækkuðu um 4,35%. Stýrivextir hafa farið hratt lækkandi (5 prósentustig á tveimur mánuðum) og ljóst að þeir munu lækka töluvert í byrjun júní (áætlum 3 prósentustig).

Verðbólguvæntingar fara ennfremur lækkandi. Stærstu liðirnir þar eru annars vegar fasteignaverð sem er á hraðri niðurleið og hins vegar gengi krónunnar sem virðist hafa náð tímabundnu jafnvægi með hjálp Seðlabankans.

Þessar væntingar koma fram í verðlagningu skuldabréfanna en óverðtryggðu bréfin hafa hækkað heldur meira en þau verðtryggðu. Þetta gerist þrátt fyrir að framboð óverðtryggðra bréfa hefur verið mun meira en þeirra verðtryggðu.

 

 

Krónan

Krónan styrktist um 0,7% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 218,6 stigum. Stýrivextir voru lækkaðir um 2,5 prósentustig og eru nú í 13%. Margir hafa bent á að háir vextir séu tvíeggjað sverð, en þar vegast á hvatinn til að ávaxta fé á innlendum vöxtum og háar vaxtagreiðslur úr landi.

Seðlabanki Íslands hefur auglýst eftir innlendum fyrirtækjum sem vilja taka erlend lán sem greidd væru út í krónum en endurgreidd ásamt vöxtum í erlendri mynt. Tilgangur þessarar aðgerðar er að veita óþolinmóðum erlendum fjárfestum tækifæri til að losa sig við krónueignir.

Nokkrir þættir eru jákvæðir við þessa aðgerð ef hún gengur upp: Hún hindrar útflæði gjaldeyris í formi vaxtagreiðslna, minnkar þrýsting á krónuna og flýtir fyrir því að hægt verður að aflétta gjaldeyrishöftum. Einnig munu fyrirtæki að einhverjum marki geta ráðist í framkvæmdir innanlands. Slíkt mun hafa áhrif á innlenda eftirspurn.

Þessi erlenda lánveiting til innlendra fyrirtækja ætti einnig að hafa jákvæð áhrif þar sem hún mun að einhverju leyti móta viðhorf annarra gagnvart Íslandi.