Markaðsfréttir 5.-8. ágúst

Vikan 5.-8.  ágúst, 2008

Hlutabréf

Hlutabréf (OMXI15) hækkuðu um 1,9% í vikunni og er það önnur vikan í röð sem hlutabréfamarkaðurinn hækkar. Það var Spron sem hækkaði mest eða um 15,51% og Exista næst mest með 8,51% hækkun. Það var hins vegar Teymi sem fór verst út úr vikunni með 25% lækkun og Eimskip með 0,7% lækkun. Viðskiptamagnið var lítið eins og verið hefur síðustu mánuði.  Markaðurinn virðist vera í jafnvægi núna og hefur hægt á lækkunarferlinu sem verið hefur síðustu mánuði.

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf lækkuðu um 0,3% í vikunni en óverðtryggð bréf hækkuðu hins vegar um 0,3%. Verðbólguálagið var orðið ansi hátt og er það reyndar ennþá og því var hér um verðleiðréttingu að ræða. Líklegt er að þessi þróun haldi eitthvað áfram þar sem verðbólguálagið er mjög hátt. Stutt verðtryggð bréf ættu þó að halda sjó þar sem það verður töluverð verðbólga næstu þrjá mánuði þrátt fyrir lækkandi olíuverð og sterkari krónu.

Krónan

Krónan veiktist um 2,03% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 162,0081 stigum. Helsta ástæða veikingarinnar var að það var nokkuð stór gjalddagi jöklabréfa í lok vikunnar en aðeins mjög litlum hluta hans var framlengt. Ef svo fer fram sem horfir að jöklabréf verði ekki framlengd á gjalddaga má búast við að krónan eigi erfitt uppdráttar næstu tvo mánuðina þar sem það eru stórir gjalddagar jöklabréfa framundan.