Markaðsfréttir 6. -10. júlí 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 0,4% í vikunni. Af skráðum hlutafélögum í kauphöllinni hækkaði Bakkavör mest, um 12,3% og Alfesca um 4,8% og endaði gengi þess í 4,4 en yfirtökutilboðið er upp á 4,5.

Mest lækkuðu bréf Eik Banka, um 10,1% og Century Aluminum um 7,4%. Veltan minnkar enn og var um 200 milljónir króna, þar af rúmur helmingur hjá Alfesca sem er að fara af markaði.

 

 

Erlend hlutabréf

Almennt lækkuðu hlutabréfavísitölur í vikunni og nam lækkun heimshlutabréfavísitölu MSCI 2,7%. Frá áramótum hefur hún staðið í stað, en frá því í mars hefur hún hækkað um tæp 35%.

Stærri landsvísitölur lækkuðu allar í vikunni og nam lækkun S&P 500 í Bandaríkjunum um 1,9%, DAX í Þýskalandi um 2,8%, Nikkei í Japan um 5,4%, og FTSE í Bretlandi um 2,6%.

Lækkun á samnorrænu VINX hlutabréfavísitölunni var 4,1%, en frá áramótum hefur hún hækkað um 11% og sker sig nokkuð frá hinum vísitölunum en þær eru allar í lækkun nema Nikkei í Japan sem hefur hækkað um 4,8% frá áramótum.

  

 

Skuldabréf

Í síðustu viku hækkuðu ríkistryggð skuldabréf í verði eftir töluverða lækkun að undanförnu.  Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 2% en óverðtryggð skuldabréf hækkuðu hins vegar um 0,75%.

Ástæða þessa viðsnúnings er sú að eftir mikla lækkun á verði ríkistryggðra skuldabréfa að undanförnu fannst fjárfestum verðið vera orðið hagstætt og eftirspurnin jókst.

Í þessari viku má búast við töluverðu framboði af óverðtryggðum skuldabréfum en það er útboð á fjögurra mánaða ríkisvíxlum á mánudag og ríkisbréfum á föstudag. Þetta gæti valdið því að verð þessara bréfa gefi eitthvað eftir á nýjan leik.

 


Krónan

Krónan veiktist um 1,68% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 232,9 stigum. Innlendir aðilar sem eignast gjaldeyri virðast ekki treysta krónunni og geyma fé sitt fremur á gjaldeyrisreikningum, en fram hefur komið að mjög háar upphæðir eru á þess háttar reikningum.

Vonir standa til að þegar óvissa um hin ýmsu mál minnka, s.s. erlend skuldastaða íslenska ríkisins, stofnefnahagur og eignarhald nýju bankanna og lyktir Icesave málsins þá muni þrýstingur af krónunni minnka smám saman og aðstæður fyrir styrkingu krónunnar skapast.

Einnig er afar mikilvægt að koma atvinnulífinu af stað og hefja framkvæmdir við virkjanir og uppbyggingu framleiðslu og þjónustu eininga sem nýta innlendar auðlindir og mannauð okkar til framleiðslu útflutningsafurða.