Markaðsfréttir 8. - 12. júní 2009

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 1,63% í vikunni. Af skráðum hlutafélögum í kauphöllinni hækkaði Century Aluminum mest, um 25% og Össur um 4,2%. Eimskip lækkaði hins vegar mest, um 30% og Bakkavör um 9,73%.

Velta í vikunni var um 250 milljónir og var um 80% af veltunni  viðskipti með bréf Össurar og  Marels. Búast má við að veltan í sumar verði mjög lítil og aukist aftur í ágúst þegar mesta sumarfrístörnin er að baki.


 

Erlend hlutabréf

Töluverðar sveiflur voru á erlendum mörkuðum í vikunni og enduðu flestir í hækkun. Markaðir í Skandinavíu , Asíu og Bandaríkjunum hækkuðu meðan nokkrir markaðir í Evrópu lækkuðu. Heimshlutabréfavísitalan hækkaði um 2%.

Af stærri landsvísitölunum lækkaði FTSE í Bretlandi um 1,2%, DAX í Þýskalandi lækkaði um 1,1%, Nikkei í Japan hækkaði um 1,8%, S&P 500 í Bandaríkjunum hækkaði um 0,7% og Norrænu vísitölurnar komu vel út og hækkuðu, t.d. OMX Copenhagen 20 um 4,2% og OBX Oslo um 2,8%.  

 

 

Skuldabréf

Töluverðar sveiflur voru á skuldabréfamarkaðinum í síðustu viku og veltan mikil.  Verðtryggð skuldabréf enduðu í 0,71% lækkun og óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,09%. Markaðurinn er enn sem fyrr í óvissu. Það er ljóst að framboðið er mikið en eftirspurnarhliðin er háð meiri óvissu.

Erlendir fjárfestar endurfjárfestu ekki nema fyrir hluta af því sem var á gjalddaga í júní og spurning hvenær þeir koma inn aftur. Flestar lausnir sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin koma með byggjast á aðkomu lífeyrissjóðanna og ef af slíku verður mun það draga úr kaupgetu þeirra á ríkistryggðum bréfum.

Til viðbótar er töluvert meiri verðbólga en reiknað var með þar sem lausnir ríkisstjórnarinnar eru í formi skattahækkana en ekki niðurskurðar og fara því beint í verðlagið.

 

 

Krónan

Krónan veiktist um 4,09% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 232,4 stigum. Krónan veiktist því töluvert í vikunni eftir að hafa styrkst vikurnar þar á undan.

Krónan er mjög veik og er ástæðan sú að markaðsaðilar hafa ekki trú á henni og leita því leiða til að finna glufur á gjaldeyrishöftunum. Til viðbótar eru töluverðar vaxtagreiðslur sem ríkið þarf að standa skil á í hverjum mánuði og því gengur hægt og rólega á gjaldeyrisforðann.

Stóra vandamálið er sem fyrr erlendir aðilar sem eiga íslensk verðbréf og ljóst að krónan verður veik svo lengi sem engin lausn finnst á þessu máli.