Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.  

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um 0,48% í vikunni en óverðtryggðu bréfin hækkuðu um  1,07%. Fjárfestar telja verðbólguálagið of hátt þar sem búast má við lítilli verðbólgu seinni hluta ársins, að því gefnu að krónan styrkist eða haldist í svipuðu gildum og hún hefur í dag.

Seðlabanki Íslands var með ríkisbréfaútboð í lok vikunnar þar sem þrír flokkar voru í boði. Alls var selt fyrir um 16,5 milljarða að nv. í útboðinu. Brúttóútgáfan er komin upp í 145 milljarða sem er það sem ríkissjóður reiknaði með að yrði heildarútgáfa ársins. Fjárfestar virðast reikna með að áætlunin haldi og keyrðu upp markaðinn í kjölfar útboðsins.

 

 

Krónan

Krónan veiktist um 1,45% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 236,8 stigum. Krónan hefur veikst undanfarið og ljóst að fáir hafa trú á henni.

Telja má líklegt að forsenda þess að hún styrkist sé að lending náist í Icesave málinu og þar með fáist lánafyrirgreiðslur frá gjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum. Með því móti nær SÍ nægjanlegum gjaldeyrisforða til að vinna gegn frekari veikingu krónunnar og skapa þar með þann trúverðugleika sem þarf til þess að snúa þessari þróun við.

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 3,4% í vikunni. Af skráðum hlutafélögum í kauphöllinni hækkaði Marel mest, um 8,2% en Össur hækkaði um 4,3%. Mest lækkuðu bréf Bakkavarar, um 8,8% og  Icelandair um 7,1%. Heildarvelta markaðarins var um 300 milljónir ef frá eru talin viðskipti með hlutabréf Alfesca sem tengdust yfirtökutilboðinu.

Markaðurinn er áfram mjög grunnur og eru það eingöngu  bréf í  Össuri og Marel sem hafa einhverja dýpt og því beinist áhugi fjárfesta að þeim. Það er ljóst að forsenda þess að hlutabréfamarkaðurinn nái sér á strik er að fleiri félög verði skráð.

 

 

Erlend hlutabréf

Almennar hækkanir voru í vikunni og nam hækkun heimshlutabréfavísitölu MSCI 1,6%.  Frá áramótum hefur hún hækkað um 17,4% og um 58% frá botninum í mars. 

Stærri landsvísitölur hækkuðu almennt um 2-3,5% en Japan lækkaði um 3,4%. Samnorræna VINX hlutabréfavísitala hækkaði um 3,4% í vikunni og er hækkun hennar 35,3% frá áramótum en til samanburðar er hækkun DAX í Þýskalandi 13,6% og S&P500 í Bandaríkjunum 13,6%.   

Athyglisvert er hversu mikið norræn hlutabréf (VINX vísitalan) hefur hækkað í samanburði við aðra þróaða markaði.  Við gerum ráð fyrir að sú þróun haldi áfram.  Ástæður þessu eru m.a. að norræn hlutabréf eru ódýrari en hlutabréf á flestum öðrum þróuðum mörkuðum. 

Auk þessa er efnahagur norrænna landa sterkur, afgangur er af utanríkisviðskiptum og staða ríkisfjármála er góð.   Sænski markaðurinn er sérstaklega áhugaverður en samkeppnishæfni sænskra fyrirtækja er nú afskaplega góð vegna veiks gjaldmiðils. 

Svíþjóð er langstærsti norræni hlutabréfamarkaðurinn en sænsk fyrirtæki eru tæplega helmingurinn af norrænu VINX vísitölunni.