Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.  

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 2,24% í vikunni. Marel hækkaði þriðju vikuna í röð, um 5,0%.  Bréf Færeyjabanka hækkuðu um 2,53%, Icelandair hækkaði um 2,27% og Össur um 4%.  Mest lækkuðu bréf Bakkavarar í vikunni eða um 22,07%.

 

Erlend hlutabréf

Eftir góðar hækkanir á erlendum hlutabréfamörkuðum undanfarnar vikur var komið að hagnaðartöku fjárfesta og lækkun markaða.  Hækkanir voru þó í Asíu þar sem von var á fréttum um jákvæðan hagvöxt í Japan á öðrum fjórðungi ársins. En þegar rýnt er betur í tölurnar hafa menn áhyggjur af því að innlend eftirspurn sé ekki að aukast.

Helstu hlutabréfavísitölur lækkuðu í vikunni og nam lækkun samnorrænu vísitölunnar VINX 0,99%, DAX í Þýskalandi  2,75%, FTSE í Bretlandi 0,37%, Dow Jones 0,52% og Nasdaq 0,74%. Þær vísitölur sem hækkuðu voru Nikkei í Japan 1,78% og Hang Seng í Kína um 2,54%.

 

Skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf áttu góða viku.  Vísitala lengri verðtryggðra skuldabréfa (10 ára meðallíftími) hækkaði um rúmt 1% en vísitala styttri verðtryggðra skuldabréfa (5 ára meðallíftími) um tæp 0,6%. Á sama tímabili lækkuðu óverðtryggð skuldabréf um tæp 0,7%.

Óvissa tengd afgreiðslu alþingis á ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga kann að hafa valdið því að fjárfestar hafa fremur sótt í skjól verðtryggingar.  Því verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í vikunni þar sem flest bendir nú til að niðurstaða sé að nást á alþingi um fyrrgreinda ríkisábyrgð.

Að margra mati virðist lausn á Icesave málum vera forsenda þess að lánveitingar fáist til að styrkja gjaldeyrisvaraforða landsins sem er aftur forsenda þess að hægt verði að slaka gjaldeyrishöftum. Spurning er hvort sú afgreiðsla alþingis sem í stefnir verði talin ásættanleg fyrir lánveitendur.

 

Krónan

Gengi krónunnar breyttist nær ekkert í vikunni og endaði gengisvísistala hennar í 233,47 stigum samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans. Lítil viðskipti eru með krónuna á innlendum millibankamarkaði sem skýrist m.a. af áhættufælni og gjaldeyrishöftum.

Gengið hér á landi og erlendis hefur verið að leita saman og evran nú seld á um 215-225 kr þar. Að mati Seðlabankans er krónan allt of veik, en tilraunir bankans til að losa um krónueignir útlendinga t.d. með því að bjóða innlendum útflutningsfyrirtækjum að gefa út skuldabréf til erlendra aðila á móti krónueignum þeirra hefur ekki gengið eftir enn sem komið er.

Vera kann að Seðlabankinn sé ekki svo ósáttur við núverandi stöðu krónunnar til skamms tíma meðan ríkisvaldið er að ganga frá stórum verkefnum, s.s. eignarhaldi á bönkunum, ICESAVE, og frekari gjaldeyrislán til styrkingar gjaldeyrisforða Íslands.

Núverandi gengi  stuðlar að miklum afgangi af vöruskiptum og dregur mjög úr eftirspurn innanlands. Seðlabankinn gæti gripið til harðari aðgerða ef hann vildi styrkja krónuna í bráð t.d. með breytiskyldu á gjaldeyri í krónur í stað skilaskyldu á gjaldeyri í Íslenska banka.