Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,57% í vikunni en óverðtryggðu bréfin hækkuðu um 1,33%. Fjárfestar meta því stöðuna þannig að verðbólguálagið sé enn of hátt en fimm ára verðbólga er núna um 3,94%.

Í vikunni var Íbúðalánasjóður með útboð og var markmiðið að selja um þrjá milljarða. Alls bárust tilboð fyrir rúma 22 milljarða eða margfalt það sem var í boði. Niðurstaðan var að tekið var tilboðum fyrir tæpa 3,7 milljarða og því ljóst að færri fengu en vildu. Í kjölfarið lækkaði krafa bréfanna niður fyrir 4% en gaf svo aðeins eftir.

Framboð verðtryggðra bréfa er lítið og því má telja ólíklegt að krafa þeirra geti gefið mikið eftir þar sem eftirspurnarhliðin er stöðug en þar fara lífeyrissjóðirnir og verðbréfasjóðirnir fremstir í flokki.


 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði í síðustu viku um 0,48% og var lokagildi vísitölunnar 802,81 stig.  Heildarvelta félaga í vísitölunni var í kringum 529 milljónir króna.

Þrjú af sex félögum í vísitölunni hækkuðu, tvö lækkuðu og eitt stóð í stað.  Icelandair hækkaði um 10% í einum viðskiptum upp á 66.000 kr.  Marel hækkaði um 2,42% og var lokagengið 67,8.  Össur hækkaði um 0,4% og var gengi bréfanna í vikulok 125. Mesta lækkun var hjá Bakkavör, 7,69% og stóð gengið í 1,2 við lokun markaða á föstudag. 

FO-BANK lækkaði um 2,12% og endaði gengið í 138,5.  Veltan á bak við þessar lækkanir var í kringum 4 milljónir hjá Bakkavör og 2 milljónir hjá FO-BANK. Mest velta var með bréf Marels, fyrir rúmar 300,3 milljónir í 22 viðskiptum og næst mest velta var með bréf Össurar fyrir 222,6 milljónir í 20 viðskiptum.

Þá lækkaði Century Aluminum í síðustu viku um 2,91% og stóð gengi félagsins í 1.400, velta með bréf félagsins, sem ekki er skráð í OMXI6ISK vístöluna, var um 7,2 milljónir í 6 viðskiptum. S.l. föstudag skilaði Nýherji uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung og var tap á rekstrinum um 107 milljónir króna en var 258 milljónir árið á undan.  Stjórn félagsins hefur áform um útgáfu á nýju hlutafé til að styrkja fjárhagsstöðu félagsins.

Þá mun Össur kynna afkomu þriðja ársfjórðungs þriðjudaginn 27.október í Kaupmannahöfn og verður sýnt beint frá fundinum á slóðinni www.ossur.com/investors.

Frá og með 26. október tekur við vetrarviðskiptatími í Nasdaq OMX Iceland, viðskipti standa frá klukkan 10:00-16:23.  Sumarviðskiptatími sem stendur frá kl.10:00-15.23 tekur við aftur þann 26. mars n.k.



Erlend hlutabréf

Lítilleg lækkun var á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í síðustu viku eftir góða hækkun vikuna á undan.  Dow Jones vísitalan lækkaði um 0,24%,  S&P 500 lækkaði um 0,11% og Nasdaq lækkaði um 0,74%.

Bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley birti uppgjör í vikunni fyrir þriðja ársfjórðung.  Hagnaður nam 498 milljónum dala og var uppgjörið töluvert betra en sérfræðingar höfðu spáð.  Heildartekjur bankans námu 8,7 milljörðum dala samanborið við 18 milljarða dala á sama tíma í fyrra.

Í Evrópu hækkaði FTSE vísitalan í London um 1,01%, DAX í þýskalandi lækkaði um 0,05% og CAC í Frakklandi lækkaði um 0,51% í vikunni.  Frá áramótum hafa þessar vísitölur hækkað um 18 til 19 prósent.

Hækkun var á helstu vísitölum í Asíu í síðustu viku.  Þannig hækkaði Nikkei í Japan um 0,25% og Hang Seng í Kína um 3,01%.  Frá áramótum hefur Nikkei hækkað um 16,07% og Hang Seng um 57,01%.  Samkvæmt nýjum hagtölum í Kína er útlit fyrir að hagvöxtur verði 8,9% í ár í stað 8% sem áður hafði verið spáð af ríkisstjórninni.

Þá lækkaði heimsvísitalan MSCI um 0,24% í vikunni en hún hefur hækkað um 25,34% frá áramótum.



Krónan

Krónan styrktist um 0,4% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 235,62 stigum. Seðlabankinn greip nokkrum sinnum inn í gjaldeyrismarkaðinn í vikunni sem trúlega hefur komið í veg fyrir veikingu krónunnar.

Verðgildi krónunnar á móti evru á aflandsmarkaði er um 9-13% lægra en á innlendum markaði. Sá munur en þó með minnsta móti miðað við það sem verið hefur.

Nokkrir þættir eru líklegir til að hafa jákvæð áhrif á krónuna. Þar má nefna stærri gjaldeyrisforða samhliða lánum frá AGS, Póllandi og Norðurlöndunum á næstu vikum, afléttingu gjaldeyrishafta að hluta um næstu mánaðamót og breyttu eignarhaldi bankanna. 

Kröfuhafar Glitnis eiga nú megnið af Íslandsbanka og kröfuhafar Kaupþings þurfa að ákveða fyrir mánaðamótin hvort þeir vilji eignast 87% í Nýja Kaupþingi eða ekki. 

Óvissa er þó enn mikil en hún lítur meira að innlendum þáttum t.d. stöðugleikasáttmálanum og fjárfestingu í atvinnulífinu. Það er alveg ljóst að eitt það mikilvægasta núna er að koma atvinnulífinu upp úr þeim hjólförum sem það situr fast í.



Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.