Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf til 10 ára (OMXI10YI)  hækkuðu um 1,04% í vikunni, verðtryggð bréf til 5 ára (OMXI5YI) hækkuðu um 0,43% og óverðtryggð bréf til 5 ára (OMXI5YNI) hækkuðu um 0,37%.  Helsta ástæðan fyrir hækkun á verðtryggðum skuldabréfum er að verðbólga í október varð mun hærri en spár höfðu gert ráð fyrir.

Verðbólga síðustu 12 mánuði mælist nú 9,7% samanborið við 10,8% í september.  Þetta er í fyrsta skipti í eitt og hálft ár sem 12 mánaða verðbólga mælist undir 10%.  Verðbólga í október var þó 1,14% sem er langt umfram spár. 

Ástæða þess að 12 mánaða verðbólga lækkar er sú að miklar verðhækkanir sem áttu sér stað í lok síðasta árs detta út úr mælingunni.  Því má búast við dvínandi verðbólgu áfram næstu mánuðina. 

Ef horft er til síðustu sex mánaða þá hafa verðtryggð skuldabréf til 10 ára hækkað um 13,85%, verðtryggð bréf til 5 ára hafa hækkað um 14,77% og óverðtryggð bréf til 5 ára hafa hækkað um 6,56%.


 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði í síðustu viku um 1,16% og var lokagildi vísitölunnar 812,13 stig.  Heildarvelta félaga í vísitölunni var í kringum 203 milljónir króna.

Þrjú af sex félögum í vístölunni hækkuðu, tvö lækkuðu og eitt stóð í stað.  Icelandair hækkaði um 9,09% í tveim viðskiptum upp á 1,2 milljónir króna og endaði gengi félagsins í 2,4.  Bakkavör hækkaði um 4,17% í einum viðskiptum og stóð gengið í 1,25 og þá hækkaði Össur um 3,2% og stóð gengið í 129.

FO-BANK lækkaði um 1,08% í 10 viðskiptum og stóð gengið í 137.  Marel lækkaði um 0,59% og endaði gengið í 67,4.  Mest velta var með bréf Össurar og Marels sem fyrr, ríflega 127,2 milljónir króna með bréf Össurar og 72,5 milljónir króna með bréf Marels.

Í síðustu viku birtu nokkur félög sem eru í Kauphöll Íslands uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung. Össur skilaði hagnaði upp á 6 milljónir Bandaríkjadala,  Á sama tíma í fyrra var hagnaðurinn13,7 milljónir dala.  Níu mánaða hagnaður félagsins á þessu ári er 17,1 milljón dala en var 24,3 milljónir fyrir sama tímabili í fyrra

Bandaríska félagið Century Aluminium sem er móðurfélag Norðuráls hagnaðist um 40,1 milljón Bandaríkjadala á fjórðungnum, á sama tíma á síðasta ári nam hagnaðurinn 35,8 milljónum dala.  Það var hins vegar 191,6 milljón dala tap á rekstri félagsins fyrstu níu mánuði ársins á móti 201 milljón dala tapi í fyrra.

Eik banki frá Færeyjum tapaði 31 milljón danskra króna á þriðja fjórðungi þessa árs en tapaði 23 milljónum danskra króna í fyrra.  Á fyrstu níu mánuðum ársins nam tapið 100 milljónum DKK á móti 33ja milljóna DKK tapi á sama tímabili 2008.

Hlutafjárútboði olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum frá Færeyjum lauk í síðustu viku og bárust loforð frá hluthöfum fyrir 188 milljónir danskra króna og verður nýja hlutaféð  skráð í Kauphallirnar á Íslandi og í Kaupmannahöfn þann 3. nóvember.



Erlend hlutabréf

Töluverð lækkun var á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í síðustu viku.  Dow Jones vísitalan lækkaði um 2,60%, S&P 500 lækkaði um 4,02% og Nasdaq lækkaði um 5,08%.

Fréttir bárust af því í vikunni að bandarískir bankar væru enn að fara í þrot og væru nú orðnir 115 á árinu. Á meðal þeirra banka sem fóru í þrot í vikunni var, sá stærsti síðan Lehman Brothers féll, CIT Group.

Í Evrópu lækkaði FTSE vísitalan í London um 3,78%, DAX í þýskalandi lækkaði um 5,67% og norræna VINX vísitalan lækkaði um 1,60% í vikunni.

Helstu vísitölur í Asíu lækkuðu einnig í síðustu viku.  Þannig lækkaði Nikkei í Japan um 2,41% og Hang Seng í Kína um 3,70%. 

Tíðindi vikunnar bera það með sér að fjárfestar telji að enn eigi eftir að leysa úr mörgum erfiðum verkefnum áður en þeir fái fulla trú á efnahagsbatanum. Jafnframt að fjárfestar hafi verið orðnir of bjartsýnir og að frekari leiðrétting eigi eftir að fylgja í kjölfarið.



Krónan

Krónan veiktist um 0,61% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 237,05 stigum.

Seðlabanki Ísland á í samningaviðræðum við Seðlabankann í Lúxemborg, en hann er óbeint stærsti erlendi eigandi krónubréfa, um lausn á krónubréfavandanum og eru menn vongóðir um niðurstöðuna.

Engar hömlur eru nú á erlendum gjaldeyri sem fluttur er hingað til lands vegna nýfjárfestinga. Einnig er opið fyrir útflæði vegna fjárfestinganna í framtíðinni. Seðlabankastjóri telur að innstreymi af gjaldeyri gæti aukist og krónan styrkst.

Þetta þýðir að fjárfestar fá heimild án takmarkana til þess að skipta aftur í erlendan gjaldeyri söluandvirði eigna sem þeir fjárfesta í eftir 1. nóvember 2009. Fyrir höfðu erlendir aðilar fulla heimild til gjaldeyrisyfirfærslna vegna vaxtatekna og arðs af fjárfestingum hér á landi.

Gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hefur verið eflt og endurskipulagt. Reglur um gjaldeyrismál voru styrktar til að koma í veg fyrir að hægt væri að nýta sér glufur í þeim. Bankinn hefur þegar tilkynnt tuttugu mál til Fjármálaeftirlitsins þar sem grunur leikur á brotum. Því til viðbótar eru meira en 20 mál til skoðunar í bankanum og gera má ráð fyrir að minnsta kosti einhver þeirra verði send til Fjármálaeftirlitsins.



Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.