Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,42% í vikunni en verðtryggð bréf hækkuðu um 0,44%. Í lok vikunnar var Lánasýsla ríkisins með ríkisbréfaútboð og skýrir það verðlækkun á óverðtryggðum bréfum. Í vikunni kom einnig fram að Íbúðalánasjóður kemur ekki til með að gefa meira út á þessu ári og því er framboð verðtryggðra bréfa minna en ætlað var.

Margir fjárfestar hafa áhyggjur af því að enn eigi eftir að draga úr framboði verðtryggðra bréfa og hafa því haldið áfram að kaupa þau þrátt fyrir að verðið sé orðið hátt.

Reiknað var með að Íbúðalánasjóður myndi byrja með nýjan flokk sem væri með lokagjalddaga árið 2054 en ljóst að af því verður ekki fyrr en á næsta ári. Íbúðalánasjóður áætlar að gefa út 34-42 milljarða á árinu 2010 sem er töluverð aukning frá núverandi ári en sjóðurinn hefur gefið út 16,5 milljarða á árinu.

Innlend hlutabréf

Töluverð velta var þessa vikuna með bréf félaga í OMXI6ISK eða 728 milljónir samanborið við 384 milljónir í síðustu viku. Þar af voru viðskipti með bréf í Össur fyrir 343 milljónir og Marel fyrir um 369 milljónir. Vístalan hækkaði um 0,64%.

Helstu tíðindi vikunnar er töluverð hækkun bréfa Össur í kjölfar greiningar norræna bankans SEB Enskilda. Bankinn mælir með kaupum og telur að gengið geti hækkað í DKK 8,20 sem gefur okkur gengi í kringum 200 hér heima.

Gengið núna er rétt um 150 og því ætti að vera rými til hækkana sé mat SEB Enskilda rétt. Sem forsendur fyrir þessu mati nefna þeir að nýjar vörur fyrirtækisins og skipulagsbreytingar í Bandaríkjunum komi til með að styrkja afkomuna.

Áframhaldandi hækkun bréfa Össurar getur haft jákvæð áhrif á innlenda hlutabréfamarkaðinn og aukið áhuga á honum. Jafnframt geta skattalagabreytingar sem ýta undir stuðning við nýsköpunarfyrirtæki með skattafslætti til fjárfesta aukið líkur á að nýtt hlutafé verði gefið út og hjálpað til við að hleypa nýju lífi í markaðinn.

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram.  12 mán
Bakkavör 1,95 25,81% 30,00% 21,88% 58,54% -22,62% -25,86%
FO-Atla 152,5 -8,13% -8,13% -39,38% -57,81% -71,76% -72,02%
FO-Bank 128 -1,54% -4,48% -6,23% 5,78% 5,79% 4,92%
Icelandair Group 3,65 -3,95% -10,98% 82,50% -23,16% -72,45% 72,45%
Marel 62 -2,36% -9,49% 6,16% 16,10% -20,31% -17,33%
Össur 149 7,19% 9,96% 21,63% 34,84% 49,30% 51,58%
OMXI6ISK 800,13 0,64% -0,72% 0,05% 8,29% -19,99% -19,99%

Erlend hlutabréf

Samkvæmt frétt bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal er sá áratugur sem nú er að renna sitt skeið á enda sá versti í sögu Wall Street hvað hlutabréf varðar.  Að jafnaði lækkuðu hlutabréfavísitölur árlega um 0,5% á meðan skuldabréf hækkuðu um 5,6 til 8 % á sama tíma.

Evrópski seðlabankinn reiknar með að tap banka á evrusvæðinu verði mun meira en áður var ætlað. Þar kemur fram að áætlað er að tapið nemi 553 milljörðum evra sem er 13% umfram það fyrri spár.

General Motors hefur ákveðið að hætta framleiðslu SAAB bifreiða og loka verksmiðju sinni í Svíþjóð. Þetta var tilkynnt eftir að ljóst varð að samningar við hollenskan bílaframleiðanda um kaup á SAAB höfðu siglt í strand. Með þessu lýkur 50 ára sögu SAAB bíla.

Jákvæð tíðindi eru þó í bílasölu í heiminum þó SAAB sé að loka, en bílasala í Evrópu jókst um 26,6% í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra.

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram.  12 mán
DAX 5831,21 1,30% 3,55% 3,45% 21,18% 21,91% 24,86%
FTSE 5196,81 -1,23% -0,43% 1,85% 20,32% 17,93% 21,98%
CAC 3794,44 -0,07% 2,31% 0,09% 18,45% 18,57% 18,28%
Dow Jones 10328,89 -1,36% 0,10% 5,62% 20,95% 17,69% 20,40%
Nasdaq 1807,36 0,85% 2,44% 4,38% 22,85% 49,17% 48,49%
S&P 500 1102,47 -0,35% 1,02% 3,55% 19,67% 22,06% 24,17%
Nikkei 10142,05 0,34% 7,22% -1,80% 4,06% 14,94% 18,57%
OMXS30 936,0335 -1,45% -0,93% 3,25% 21,15% 42,33% 41,98%
OBX 332,0925 0,38% 5,61% 15,17% 28,53% 68,74% 74,74%
OMXH25  1948,301 -0,62% -0,02% -0,94% 23,34% 28,92% 32,04%
OMXC20 334,2925 0,69% -0,40% -1,54% 13,00% 33,72% 33,12%

Krónan

Krónan veiktist í vikunni og hækkaði gengisvísitalan um 0,75% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 237,28 stigum. Undanfarna mánuði hefur krónan sveiflast á þröngu bili, 230-240 stig.

Þrátt fyrir aukinn stöðugleika gefur tæknigreining til kynna að krónan sé enn í veikingarfasa. Óvissa um stöðu hagkerfisins er enn mikil. Gengið hefur verið frá fjármögnun hinna föllnu banka sem er mjög jákvætt.

Flest bendir til þess að á næstu vikum komi niðurstaða í ICESAVE, en erfitt er að meta áhrifin af því. Ef ríkisábyrgð verður hafnað er líklegt að áhrifin verði neikvæð, að minnsta kosti til skemmri tíma.

Hætta er á frekari lækkun lánshæfismats ríkissjóðs og veikingu krónunnar. Verði ríkisábyrgð samþykkt má búast við áframhaldandi stöðugleika krónunnar en fremur ósennilegt er að áhrifin leiði til verulegrar styrkingar. Markaðsaðilar eru líklega búnir að verðleggja samþykki ICESAVE inn í krónuna.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram.  12 mán
GVT ISK 237,28 0,75% 1,28% 1,92% 2,66% 10,13% 8,44%

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.