Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf til 10 ára (OMXI10YI) hækkuðu um 0,65% í vikunni, verðtryggð bréf til 5 ára (OMXI5YI) hækkuðu um 0,92% og óverðtryggð bréf til 5 ára (OMXI5YNI) lækkuðu um 0,65%. 

Lítil velta var á skuldabréfamarkaði í byrjun vikunnar en hún jókst þegar á leið.  Þannig var miðvikudagurinn veltuminnsti dagur ársins með íbúðabréf en á fimmtudaginn var þriðja mesta velta ársins á skuldabréfamarkaði. 

Fimmtudag og föstudag hækkaði krafa flestra ríkisbréfa en krafa íbúðabréfa lækkaði.  Ástæðan fyrir því er væntanlega sú að Seðlabanki Íslands býst við því að verðbólgan hjaðni hægar en áður hafði verið spáð.  Kom það fram í fjórðu útgáfu af Peningamálum 2009 sem Seðlabankinn birti á fimmtudaginn. 

Ef horft er til síðustu sex mánaða þá hafa verðtryggð skuldabréf til 10 ára hækkað um 10,04%, verðtryggð bréf til 5 ára hafa hækkað um 10,18% og óverðtryggð bréf til 5 ára hafa hækkað um 3,06%.


 

Innlend Hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði í síðustu viku um 0,55% og var lokagildi hennar 816,58 stig. Heildarvelta félaga í vísitölunni var um 547 milljónir. Mesta veltan var með bréf í Marel fyrir um 394 milljónir í 72 viðskiptum og Össur fyrir 142 milljónir í 44 viðskiptum. 

Í vikunni voru viðskipti með öll sex félögin í vísitölunni, þrjú hækkuðu og þrjú lækkuðu. Icelandair hækkaði um 16,67% í þrennum litlum viðskiptum. Össur hækkaði um 6,98% og var lokagengið 138, og einnig hækkuðu bréf Marels um 0,74% og lokagengið 67,9. 

Mesta lækkun var á gengi bréfa Atlantic Petroleum 10,25% en þess má geta að þann 3. nóvember var nafnverð hækkað um DKK 150.097.300 og er því orðið DKK 262.670.300.  Bakkavör lækkaði um 8% í mjög litlum viðskiptum og Færeyjabanki lækkaði einnig, um 0,36%.

Af fréttum vikunnar má nefna að Icelandair frestaði birtingu uppgjörs fyrir þriðja fjórðung en samkvæmt drögum að árshlutareikningi félagsins var EBITDA 8,4 milljarðar samanborið við 6,2 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Marel birti uppgjör sem virðist hafa verið í takt við væntingar markaðarins, tekjur af kjarnastarfsemi námu 111,9 milljónum evra og EBITDA 18,6 milljónum evra sem er 16,6% af veltu.

Össur lauk útboði á nýjum hlutum sem var beint til fagfjárfesta í Danmörku í kjölfar skráningar félagsins í dönsku kauphöllina. Útboðið gekk vel og var hlutafé félagsins hækkað um 29.500.000 hluti.


 

Erlend Hlutabréf

Töluverð hækkun var á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í síðustu viku.  Dow Jones vísitalan hækkaði um 3,02%, S&P 500 hækkaði um 3,20% og Nasdaq hækkaði um 0,51%.

Hlutabréfavísitölur í Evrópu hækkuð einnig,  FTSE um 1,95%, DAX um 1,22% og CAC um 2,76%

Nikkei í Japan lækkaði um 3,16% en Hang Seng í Kína hækkaði um  0,35%.

Samnorrænavísitalan (VINX) hækkaði um 0,57% og OBX í Noregi um 1,10%

Þegar 36 viðskiptadagar eru eftir af árinu í Bandaríkjunum er ekki útlit fyrir að S&P 500 vísitalan skili jákvæðri ávöxtun þennan áratuginn. Vísitalan mælir virði 500 veltumestu fyrirtækja á Bandaríkjamarkaði og þyrfti vísitalan að hækka um 41% það sem eftir lifir árs til þess að enda á sléttu frá aldamótum.

Tímabilið einkennist af tveimur slæmum niðursveiflum á hlutabréfamörkuðum. Á tæpum tveimur mánuðum hækkaði vísitalan um 39% sem er með því mesta sem þekkist á tímabilinu. Ef annað eins tímabil tæki við núna væri möguleiki að sleppa svo til á sléttu.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) segir mælingar á leiðandi hagvaxtarvísitölu stofnunarinnar (Composite Leading Indicator) fyrir september gefa sterkar vísbendingar um hagvöxt á Ítalíu, Frakklandi, Bretlandi og Kína. Þá eru merki um þenslu í Kanada og Þýskalandi, skv. bráðabirgðatölum.

Einnig kemur fram í skýrslu OECD að augljós batamerki sjáist í Bandaríkjunum, Japan auk annarra OECD-ríkja og annarra ríkja sem tilheyra ekki OECD. Þrátt fyrir þenslumerki í nokkrum ríkjum þá segir í skýrslunni að það eigi að fara varlega í að túlka þessi merki. Búist sé við því að efnahgslífið muni komast á réttan kjöl.



Krónan

Krónan veiktist um 0,77% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 238,88 stigum.

Síðasta vika var fyrsta vikan eftir að innflæði á gjaldeyri var gefið frjálst. Framan af voru ekki miklar breytingar á gengi krónunnar en á föstudag veiktist krónan töluvert og greip seðlabankinn verulega inn í markaðinn. Vextir Seðlabankans voru lækkaðir á fimmtudag, en erfitt er að segja hvort það eitt og sér hafi valdið auknum þrýstingi á krónuna.

Bent hefur verið á að tekjur af ferðamönnum hafi minnkað mikið eftir að hávertíðinni hafi lokið. Í vikunni bárust fréttir af mjög miklum afgangi af vöruskiptum, en allt þetta ár hefur því verið haldið fram að afgangur af viðskiptum við útlönd skili sér illa inn á gjaldeyismarkaðinn.

Afnám fyrsta áfanga haftanna ætti að hafa jákvæð áhrif á krónuna fremur en neikvæð. Framvindan næstu vikurnar ræðst af áhuga erlendra aðila á krónunni en það getur tekið einhver tíma fyrir þá að koma viðskiptunum í kring, til að mynda að fá eignir sínar skráðar hjá Seðlabankanum.

Mi kið veltur á því að vel gangi í þessu fyrsta skrefi í afnámi gjaldeyrishaftanna því næsta skref veltur  töluvert á því hvernig gengur í þessu skrefi.   



Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.