Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend skuldabréf

Óverðtryggð bréf sem og verðtryggð bréf hækkuðu um 0,5% í vikunni.   Það er vaxandi eftirspurn eftir ríkistryggðum bréfum og búast má við að svo verði áfram næstu vikurnar.

Það eru nokkrir þættir sem ýta undir eftirspurnina. Í fyrsta lagi voru stýrivextir lækkaðir um 100 punkta þann 5. nóvember s.l. og eru nú 11%. Á sama tíma lækkaði SÍ innlánsvexti niður í 9%.

Í kjölfarið lækkuðu innlánsstofnanir sína vexti og því kom rót á innstæður í bönkum. Það má því búast við auknu flæði úr innistæðum í ríkistryggð bréf þegar líður nær áramótum þar sem ávöxtunarkrafa ríkisbréfa er nú hærri en almennt er hægt að fá í innlánum.

Í öðru lagi má búast við að lífeyrissjóðir minnki innlán og fari í ríkistryggð bréf fyrir áramót þar sem þau koma vel út í útreikningum sem lúta að tryggingafræðilegri stöðu þeirra. Getur skipt sköpum um hvort þeir þurfi að lækka réttindi eða ekki um næstu áramót.

Í þriðja lagi seldi SÍ mun minna af ríkisvíxlum en reiknað var með í síðasta útboði sem var 12. nóvember s.l. Á gjalddaga í nóvember voru 40 milljarðar en í útboðinu voru aðeins seldir 20 milljarðar. Það voru því 20 milljarðar sem út af stóðu og búast má við að þeir fjármunir leiti að einhverju marki í stutt ríkisbréf.


 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði í síðustu viku um 1,24% og var lokagildi hennar 806,43 stig.  Heildarvelta félaga í vísitölunni var um 372 milljónir króna.  Mest var velta með bréf Marels fyrir um 291 milljónir í 38 viðskiptum og Össur fyrir um 77 milljónir í 29 viðskiptum.

Í vikunni voru viðskipti með bréf í öllum þeim sex félögum sem mynda vísitöluna, þrjú hækkuðu og þrjú lækkuðu.  Bakkavör hækkaði mest eða um 50% og Icelandair hækkaði um 24,14%.

Mesta lækkun var hjá Atlantic Petroleum(FO-ATLA) 7,52% í aðeins 2 viðskiptum.  Næst mest lækkuðu bréf Össurar eða um 1,45%.

Í síðustu viku skiptu 12 milljónir hluta í Össuri um hendur í einum viðskiptum í kauphöllinni í Kaupmannahöfn.  Þetta er um það bil 2,7% af útgefnu hlutafé félagsins.  Seljandi var Össur Kristinsson stofnandi Össurar hf.  Hann á eftir söluna í kringum 5% af hlutafé félagsins. 

Þá gerði Össur  hf. samning við Nýja Kaupþing og Saga Capital um viðskiptavakt á hlutabréfum félagsins á NASDAQ OMX á Íslandi.

Marel undirritaði viljayfirlýsingu við hollenska fjárfestingasjóðinn Nimbus varðandi sölu á Stork Food and Dairy Systems, einingu sem starfar utan við kjarnastarfsemi fyrirtækisins.  Stefnt er að því að ljúka sölunni á þessu ári.

Færeyska flugfélagið Atlantic Airways skilaði hagnaði fyrstu 9 mánuði ársins upp á 7,8 milljónir danskra króna, í tilkynningu um uppgjörið kemur fram að líklegt er að hagnaður ársins þurrkist út á fjórða ársfjórðungi.



Erlend hlutabréf

Miklar hækkanir einkenndu erlenda hlutabréfamarkaði í síðustu viku.  Dow Jones vísitalan hækkaði um 2,46%,  S&P 500 vísitalan hækkaði um 2,26%  og Nasdaq hækkaði um 2,62%. 

Í byrjun vikunnar birti fjárfestingarfélagið Berkshire Hathaway Inc ársfjórðungsuppgjör sitt og nam hagnaður félagsins 3,24 milljörðum.  Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 1,06 milljörðum og hafði hann því þrefaldast á milli tímabila.  Warren Buffett eigandi félagsins og einn frægasti fjárfestir heims sagði við það tilefni að hann teldi að lausafjárkrísan væri að minnka. 

Í Evrópu hækkaði FTSE vísitalan í London um 2,99%, DAX í Þýskalandi hækkaði um 3,62% og CAC í Frakklandi hækkaði um 2,66% í vikunni.  Samkvæmt tölum frá Hagstofu Evrópu mælist nú hagvöxtur á ný á evru-svæðinu í heild sinni.

Hang Seng vísitalan í Kína hækkaði um 3,32% í vikunni en Nikkei lækkaði um 0,19%.  Að lokum hækkaði heimsvísitalan MSCI um 2,30%.



Krónan

Krónan veiktist í vikunni og hækkaði gengisvísitalan um 0,23% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 239,43 stigum.  Tvær vikur eru nú liðnar frá því breytingar á gjaldeyishöftum tóku gildi. Á þeim tíma hefur krónan veikst um 1%.

Reglum hefur verið breytt til að auka flæði í gegnum innlendan millibankamarkað með krónur. Ekki er heimilt að kaupa krónur á aflandsmarkaði og færa þær á innlenda bankareikninga eða til kaupa á innlendum verðbréfum sem eru í vörslu á Íslandi.

Þetta ætti að loka verulega fyrir að málamyndagerningar viðgangist þar sem krónur voru seldar innanlands og síðan keyptar aftur á aflandsmarkaði þar sem gengi krónunnar er mun lægra. Gjaldeyrir var keyptur út á málamyndasamninga um kaup á vörum eða fasteignum.

Nýjar reglur ættu að hafa þau áhrif að útflytjendur verða að selja sinn gjaldeyri hér á landi til að greiða fyrir innlendan kostnað. Helsti ókosturinn við nýtt fyrirkomulag er að hert er á höftunum en slíkt mun líklega auka mun á milli gengi krónunnar hér á landi og erlendis. Krónan hefur veikst undanfarið á erlendum mörkuðum og munur milli kaup- og sölugengis er orðinn mjög mikill.



Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.