Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.    

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

 

Innlend skuldabréf

Óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,12% í vikunni og verðtryggð bréf hækkuðu um 0,34%. Krafa ríkistryggðra bréfa hefur þokast niður vegna mikillar eftirspurnar. Lítið framboð er af verðtryggðum bréfum og því leitar eftirspurnin í íbúðabréfin þrátt fyrir að krafa þeirra sé orðin ansi lág.

Verðbólguálagið er um og yfir 4% sem er kannski ekki mikið miðað við verðbólgu síðustu tveggja ára en mjög áhugavert sé horft fram á veginn. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattamálum leiða af sér samdrátt í eftirspurn sem ætti að vinna upp og gott betur þær verðlagshækkanir sem koma til vegna skattahækkana.

Mesta verðbólguógnin felst í þróun krónunnar. Seðlabankinn hefur lagt ofuráherslu á að krónan veikist ekki og takist honum það gæti trú manna á krónunni aukist sem er forsenda þess að hún styrkist. Styrkist krónan ætti að öllu jöfnu að koma tímabil verðhjöðnunar.

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 0,30% í vikunni. Heildarfjöldi viðskipta með bréf félaganna sex í vikunni var 57 og samanlögð velta 189 milljónir þar af um 155 milljónir með Marel.

Icelandair hækkaði um 13,89% í 4 viðskiptum og veltu upp á 800 þúsund.  Engin breyting varð á gengi Atlantic Petroleum , Össurar og Bakkavarar. Bréf Færeyjabanka lækkuðu um 1,11% og bréf Marels um 0,58%.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn (OMXI6ISK) hefur hækkað um 14% á síðustu sex mánuðum en er enn niður um 20% frá ársbyrjun. Frá því lægsta gildi var náð í fyrri hluta marsmánaðar hefur markaðurinn hækkað um 43%.

 

 

Erlend hlutabréf

Erlendir hlutabréfamarkaðir gáfu aðeins eftir í vikunni og lækkaði heimshlutabréfavísitala MSCI um 0,85%. Af stærri landsvísitölum lækkaði S&P 500 í Bandaríkjunum um 0,19%, DAX í Þýskalandi um 0,42%,  FTSE í Bretlandi um 0,85% og Nikkei í Japan lækkaði verulega, um 2,79%.

Frá áramótum hafa áðurnefndar vísitölur hækkað í kringum 20% en japanska vísitalan aðeins um 7%. Nýmarkaðir hafa hækkað meira. Af þróuðum mörkuðum hafa norðurlöndin skilað góðri ávöxtun og hefur samnorræna VINX Benchmark vísitalan hækkað um 41% frá áramótum.

Margir velta fyrir sér hvort hækkanir haldi áfram. Þrátt fyrir aukna iðnaðarframleiðslu og hagvöxt víða um heim eru blikur á lofti. Bent hefur verið á að aukinn hagvöxtur undanfarin misseri sé að verulegu leyti tilkominn vegna örvandi aðgerða stjórnvalda, en ekki raunverulegum bata.

Heimili og fyritæki í hinum vestræna heimi eru verulega skuldsett og spurning hvort þau vilji draga úr skuldsetningu í stað þess að auka neyslu. Ef slíkt verður raunin verður hagvöxtur minni en vonir standa til og verðhjöðnun. Slíkar aðstæður hafa verið ríkjandi í Japan í verulegan tíma enda hefur ávöxtun hlutabréfa þar verið mjög slök.

 

 

Krónan

Krónan styrktist í vikunni og lækkaði gengisvísitalan um 1,17% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 236,64 stigum.  

Í skýrslu OECD segir að mikilvægt sé fyrir Íslendinga að halda krónunni stöðugri. Draga eigi í áföngum úr gjaldeyrishöftum til að koma á eðlilegum samskiptum við erlenda markaði og gera fyrirtækjum kleift til að sækja þangað lánsfé.

Heimsmarkaðverð á áli fór yfir 2.000 dollara á tonnið í vikunni. Talið er að álverð haldi áfram að stíga sem eru mjög jákvæðar fréttir fyrir krónuna. Annars vegar eykur það tekjur ríkisins og félaga í eigu ríkis og sveitarfélaga sem sjá um raforkusölu og hins vegar eykur það líkur á áframhaldandi uppbyggingu áliðnaðarins hér á landi. Þetta styður við krónuna, minnkar atvinnuleysi og þar með útgjöld ríkisins og eykur þar með enn frekar tekjur ríkisins.

 

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.