Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.    

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

 

Innlend skuldabréf

Óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,08% í vikunni og verðtryggð bréf um 0,54%. Krafa ríkistryggðra bréfa hefur þokast niður vegna mikillar eftirspurnar. Lítið framboð er af verðtryggðum bréfum og því leitar eftirspurnin í íbúðabréfin þrátt fyrir að krafa þeirra sé orðin ansi lág.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,74% í nóvembermælingunni sem er heldur meiri hækkun en reiknað var með. Þessi mæling segir til um hversu mikið verðtryggingarhluti skuldabréfa hækkar í desember. Það er ljóst að verðtryggð bréf eru mjög áhugaverð eign í desember og því reiknum við með eftirspurn í stutt verðtryggð bréf.

Búast má við frekari hækkun verðlags næstu mánuði, annars vegar vegna skattaákvarðana ríkisstjórnarinnar og hins vegar vegna veikrar stöðu krónunnar. Því er trúlegt að næstu þrjá mánuði muni stutt verðtryggð bréf koma til með að gefa bestu ávöxtunina og stutt óverðtryggð bréf þá lökustu.

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK stóð í 777 stigum og lækkaði um 3,35% í vikunni.  Mesta veltan var sem fyrr með bréf Marels (472 mkr) og Össurar (53 mkr.)

Bakkavör hækkaði um 3,33% en félagið skilaði þriðja ársfjórðungsuppgjöri í síðustu viku og nam hagnaður 838 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við tap að fjárhæð 11,2 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

Mest lækkuðu bréf Marels (um 10,95%) en félagið efndi til hlutafjáraukningar í síðustu viku meðal fagfjárfesta og var markmiðið að auka hlutafé félagsins um 15% (92,4 milljónir hluta). 

Stjórn Marel ákvað að taka öllum tilboðum sem voru að upphæð 7 milljarða króna sem  jafngildir 18% aukningu.  Gengi í útboðinu var krónur 63 á hlut.  Lokagengi Marels á markaði á föstudag var 61.  Með útboðinu leysir Marel til sín 61,8% af skuldabréfaflokki MARL 06 1 og 17,6% af skuldabréfaflokki 09 01.  Eftir aukninguna verður heildarhlutafé 727.136.497 hlutir.

Síðustu daga hefur borið á umræðum um hvort hægt sé að flýta skráningu hluta þeirra  fyrirtækja sem komin eru undir stjórn ríkisbankana.  Skiptar skoðanir erum um hvort það sé hægt og þá hversu hratt.  Skráning fleiri fyrirtækja myndi styrkja innlenda hlutabréfamarkaðinn enda er hann ansi þunnskipaður þessa dagana.

 

 

Erlend hlutabréf

Litlar breytingar urðu á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum í síðustu viku.  Dow Jones vísitalan lækkaði um 0,08%,  S&P 500 hækkaði um 0,01% og Nasdaq lækkaði um 0,35%. 

Í Evrópu lækkaði FTSE vísitalan í London um 0,11%,  DAX í Þýskalandi hækkaði um 0,40% og CAC í Frakklandi lækkaði um 0,21%.

Helstu vísitölur í Asíu lækkuðu hins vegar mjög mikið en Hang Seng í Kína lækkaði um 4,38% í síðustu viku og Nikkei í Japan lækkaði um 5,88%.  Ástæðan fyrir þessum lækkunum  var frétt frá Dubai sem er eitt af sameinuðu furstadæmunum.  Eitt af fjárfestingafélögum ríkisins, Dubai World, hefur beðið um frest á afborgunum lána í hálft ár en skuldir félagsins nema 60 milljörðum dala.

Ekki er ólíklegt að þessi frétt eigi eftir að hafa áhrif á fjármálamarkaði um allan heim á komandi vikum þar sem miklar byggingaframkvæmdir hafa átt sér stað í Dubai undanfarin ár.  Sú uppbygging hefur meðal annars verið fjármögnuð af HSBC Holdings í Bretlandi og Sumitomo Mitsui Financial Group í Japan.  Þá hafa byggingafyrirtæki í Japan, Ástralíu og Suður-Kóreu unnið við byggingaframkvæmdir í Dubai.

 

 

Krónan

Krónan styrktist lítillega í vikunni og lækkaði gengisvísitalan um 0,11% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 236,39 stigum. 

Gengi krónunnar hefur haldið áfram að vera stöðugt, en vísitalan hefur sveiflast á milli 230 og 240 síðan í upphafi sumars.  Einnig hefur dregið úr inngripum seðlabankans, en hert hefur verið á eftirliti með gildandi gjaldeyrishöftum. Það hefur valdið vonbrigðum að krónan hefur nær ekkert styrkst í nóvember, en opnað var fyrir innflæði gjaldeyris í upphafi mánaðarins.

Ástæðan gæti verið aukin áhættufælni fjárfesta, en skuldatryggingaálag á íslenska ríkið til 5 ára hefur hækkað allan mánuðinn, eða um 26 prósentustig og stendur í um 426 stigum. Hækkun hefur einnig einkennt mörg önnur lönd. Aukinn skjálfti er á hlutabréfamörkuðum, ekki síst vegna vandræða hjá fasteignafélagi í Dubai.

Í sjálfu sér er það jákvætt að krónan hefur náð stöðugleika, þó við veikt gengi sé, en styrking hennar mun ráðast af áframhaldandi bata í heimshagkerfinu ekki síður en þróun mála innanlands.

 

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.