Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,89% í vikunni og verðtryggð bréf hækkuðu um 1,77%. Eftirspurnin er því áfram meiri í verðtryggðu bréfin og því ljóst að fjármagnseigendur eru ekki trúaðir á að Seðlabankanum takist að ná verðbólgunni niður.

Helstu verðbólguvaldarnir í dag eru gjaldskrár- og skattahækkanir hins opinbera ásamt háum vöxtum. Krónan, sem hefur verið aðal verðbólguvaldurinn síðustu misseri, er búin að vera nokkuð stöðug lengi og því ættu verðlagshækkanir vegna veikingu hennar að vera komnar að mestu út í verðlagið.

Í vikunni var lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem ábyrgð Innlánstryggingarsjóðs var hækkað úr 20.000 evrum í 50.000 evrur sem gera rúmar 9 milljónir ISK m.v. gengi krónunnar í dag.

Fjárfestar mátu framlagningu frumvarpsins þannig að nú væri stutt í að ríkisábyrgð innlána myndi falla niður og því hækkuðu ríkistryggðu bréfin töluvert í verði í kjölfarið.

Innlend hlutabréf

Síðasta vika var ágæt fyrir íslenskan hlutabréfamarkað og töluverð viðskipti voru með þau tvö félög sem bera uppi markaðinn. Vísitalan hækkaði um 1,76% og veltan var um 690 milljónir. Félögin tvö, Marel og Össur, voru með 97% af heildarveltunni í síðustu viku. Mest viðskipti voru með bréf Marel eða 86% af heildarveltunni og Össur með 11%.

Nokkrar flagganir voru í Marel í vikunni í kjölfar hlutafjáraukningar í félaginu. Eyrir Invest sem er stærsti hluthafi félagsins tók ekki þátt í aukningunni og þynntist hlutur þeirra því úr 37,8% í 32%.

Horn fjárfestingarfélag sem er næst stærsti hluthafinn bætti hins vegar við sig og fór úr 15% í 20,8%. Samtals eru tveir stærstu hluthafarnir með 52,8% fyrir og eftir hlutafjáraukninguna.

Jafnframt gaf Össur út 1.250.000 nýja hluti (0,28% aukning) þann 30. nóvember í kjölfar kaupa félagsins á bandarísku fyrirtæki sem sér um dreifingu á spelkum og stuðningsvörum.

 

Félög/vísitala Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 
Bakkavör 25,93% 47,83% 0,00% 50,44% -32,54%
FO-Atla 0,00% -7,52% -31,25% -54,25% -51,61%
FO-Bank -0,75% -3,30% -4,00% 7,76% 9,09%
Icelandair Group -1,30% 35,71% -2,56% -15,56% -71,32%
Marel 2,46% -7,95% 5,04% 14,68% -19,67%
Össur 4,20% -1,09% 6,23% 27,57% 36,77%






OMXI6ISK 1,76% -3,16% -3,52% 9,28% -20,89%

 

  

Erlend hlutabréf

Það eru merki um efnahagsbata í Bandaríkjunum þar sem atvinnuleysið fer minnkandi m.v. síðustu mælingar, úr 10,2% niður í 10,0% sem er þvert á spár sérfræðinga.  Þessar fréttir höfðu mjög góð áhrif á markaði víða um heim og hækkuðu flest allar hlutabréfavísitölur í vikunni.

Bankarnir vestan hafs eru aðeins að rétta úr kútnum. Sem dæmi mun Bank of America sem er stærsti banki Bandaríkjanna, endurgreiða bandarískum stjórnvöldum 45 milljarða dala, sem hann fékk úr ríkissjóði í kjölfar hrunsins.

Samt sem áður er heimurinn enn að glíma við kreppuna. Sem dæmi tilkynnti seðlabanki Japans  að hann ætlaði að dæla 10 þúsund milljörðum jena (13.950 milljörðum ISK) inn á fjármálamarkaðinn á næstunni til að styðja við efnahag landsins.

 

Vísitölur Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 
DAX  2,32% 5,22% 5,65% 13,72% 20,01%
FTSE 1,28% 2,69% 7,02% 18,98% 19,06%
Dow Jones 0,55% 3,65% 10,04% 18,55% 18,37%
Nasdaq 2,61% 3,88% 8,70% 18,65% 39,14%
S&P 500 0,77% 2,31% 8,81% 17,65% 22,44%
Nikkei  10,36% 3,86% -1,49% 4,09% 14,76%
Krónan

Krónan styrktist í vikunni og lækkaði gengisvísitalan um 0,57% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 235,03 stigum. 

Hægfara styrking krónunnar heldur áfram og hefur svo verið síðast liðnar 4 vikur. Hæsta gildi gengisvísitölunnar var 26. ágúst 2009, 239,25.  Krónan er komin í styrkingarfasa samkvæmt einfaldri tæknigreiningu (100 daga hlaupandi meðaltal). Krónan hefur verið í veikingarfasa síðan í mars síðastliðin og eru þetta því töluverðar fréttir.

Framhald á styrkingu krónunnar mun fremur ráðast af viðhorfi fjárfesta til Íslands og fjárfestinga hér á landi en afgangi af viðskiptum við útlönd. Samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka Íslands um greiðslujöfnuð á þriðja ársfjórðungi var viðskiptajöfnuður neikvæður um 36 milljarða þrátt fyrir myndarlegan vöru- og þjónustuafgang.

Að teknu tilliti til áhrifa gömlu bankanna sem er reiknuð stærð, en ekki raunverulegt útflæði þá var hallinn um 9,5 milljarðar. Því er ljóst að verulega þarf að draga úr innflutningi og/eða útflutningur að aukast til að styðja við krónuna að einhverju marki.

  

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.