Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 5,78% í vikunni. Bakkavör hækkaði mest íslenskra félaga eða um 45,63% og kom hækkunin öll á föstudeginum í veltu upp á rúmlega 6 milljónir en félagið birti afkomu annars ársfjórðungs í vikunni. 

Í kjölfarið óskaði Bakkvör eftir afskráningu hlutabréfa félagsins úr Kauphöll en skuldabréf félagsins verða áfram skráð. Þessi ákvörðun er tekin með hagsmuni hluthafa félagsins í huga segir í tilkynningu frá stjórn félagsins.

Bréf Færeyjabanka hækkuðu um 17,48% og bréf Össurar um 1,64%. Marel lækkaði um 0,68% en verð annarra félaga í vísitölunni breyttist ekki.

Önnur tíðindi í vikunni voru að Össur hefur sótt um skráningu á Nasdaq OMX í Kaupmannahöfn og Alfesca fer fram á innlausn hluta þeirra sem ekki samþykktu yfirtökutilboð Lur Berri Iceland.


Erlend hlutabréf

Erlendir hlutabréfamarkaðir hækkuðu almennt í vikunni.  Samnorræna vísitalan VINX Benchmark hækkaði um 0,8%, DAX í Þýskalandi 1,0%, FTSE í Bretlandi 1,20%, Dow Jones 0,40%, Nasdaq 0,39% og Nikkei um 2,89% en Hang Seng í Kína lækkaði um 0,50%.

Hækkanir hafa verið mjög miklar og skarpar frá því í mars og ekki ólíklegt að við taki tímabil með hófsamari hækkunum. Ekki er ólíklegt að við sjáum daga þar sem töluverðar lækkanir verða en það mun tengjast því er fjárfestar losa út hagnað undanfarinna mánaða (hagnaðartaka).


Skuldabréf          

Í kjölfar lækkunar vikuna á undan sóttu óverðtryggð skuldabréf í sig veðrið og hækkuðu um 1% í síðustu viku.  Á sama tíma stóð verð verðtryggðra skuldabréfa í stað. 

Mæling á vísitölu neysluverðs var birt s.l. fimmtudag.  Vísitalan hækkaði um 0,52% frá fyrra mánuði. Útsölulok höfðu mest áhrif til hækkunar (vísitöluáhrif 0,32%) sem og hækkun dagvöru (vísitöluáhrif 0,19%). 

Breyting á húsnæðisverði lækkaði aftur á móti (vísitöluáhrif -0,10%). Hækkun vísitölunnar var töluvert minni en spár höfðu gert ráð fyrir og kann það að skýra betri árangur óverðtryggðra skuldabréfa en verðtryggðra í vikunni.

Hið margumrædda Icesave hefur loksins verið afgreitt frá alþingi en þó er enn töluverð óvissa um þróun þess máls þar sem beðið er viðbragða Breta og Hollendinga við þeim fyrirvörum sem alþingi setti vegna ríkisábyrgðar.
 


Krónan

Krónan styrktist um 1,44% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 233,4 stigum. Krónan hefur verið að veikjast nær óslitið síðan um miðjan mars, en Seðlabankinn greip inn í undir lok vikunnar sem leiddi til 2,5% styrkingar.

Erfitt er að meta framhaldið, en vera kann að áherslubreyting fylgi nýjum seðlabankastjóra. Ákvörðun um stýrivexti verður birt 24. september.