Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.    

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

 

Innlend skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um rúm 0,5% í vikunni en óverðtryggðu bréfin lækkuðu um  0,34%. Ríkistryggð skuldabréf hækkuðu verulega í ágúst og þá sérstaklega óverðtryggð bréf.

Jákvæðar fréttir af samningum nýju bankanna við skilanefndirnar höfðu góð áhrif á markaðinn. Til viðbótar hafa innlánsvextir lækkað hratt síðustu vikurnar.

Ennfremur eru væntingar um að það verði litlar verðlagshækkanir í vetur þrátt fyrir skattahækkanir stjórnvalda. Gengi krónunnar mun þó ráða mestu um verðlagið og ef hún gefur eftir þá má búast við áframhaldandi hækkun verðlags.

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 1,32% í vikunni. Bakkavör hækkaði mest íslenskra félaga eða um 13,33% og fylgdi eftir góðri hækkun í síðustu viku. 

Við minnum þó á að Bakkvör hefur óskað eftir afskráningu hlutabréfa félagsins úr Kauphöll. Önnur félög í vísitölunni sem hækkuðu voru Össur um 3,63% og Marel um 1,19%.

Skráning hlutabréfa Össurar á markaðinn í Kaupmannahöfn var samþykkt í vikunni og voru fyrstu viðskipti með bréf félagsins á föstudaginn.

Tvöföld skráning ætti að vera jákvæð fyrir verðmyndun bréfa félagsins, aukin velta og markaður fyrir erlenda fjárfesta þar sem þeir geta átt viðskipti án ótta við íslenskt regluverk.

Færeysku félögin Atlantic Petroleum og Føroya Bank lækkuðu bæði í vikunni, það fyrrnefnda um 12,86% og það síðarnefnda um 4,84%.

Føroya Bank hefur tilkynnt um frekari vöxt og að sá vöxtur verði að koma utan Færeyja og er aðallega horft til Danmerkur. Bauð bankinn nýlega í Fionia banka en því tilboði var hafnað í vikunni.

 

 

Erlend hlutabréf

Heimshlutabréfavísitala MSCI lækkaði um 1,7% í vikunni, S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 1,2%, DAX vísitalan í Þýskalandi um 2,4%, Nikkei í Japan um 3,3% og breska FTSE vísitalan lækkaði um 1,7%.

Frá áramótum er hækkun áðurnefndar vísitalna á bilinu 9,4 til 15%, en heimshlutabréfavísitala MSCI hefur hækkað um 16,9%. Nýmarkaðir hafa almennt hækkað meira en þróaðir markaðir og nemur hækkun þeirra frá áramótum oft um 30-45%.

Af þróuðum mörkuðum skera Norðurlöndin sig nokkuð úr en Svíþjóð hefur hækkað um 44% og einnig hefur samnorræna VINX Benchmark vísitalan hækkað verulega,  eða um 33%.

Þrátt fyrir miklar hækkanir á erlendum mörkuðum undanfarið er algengt að verð hlutabréfavísitalna sé 10-30% undir 52 vikna hámarki.

Framtíðarþróun hlutabréfaverðs ræðst af því hvernig ríkjum heims tekst að vinna sig út úr kreppunni. Ef vel tekst til ætti hagnaður fyrirtækja að aukast hratt þar sem þau hafa neyðst til að skera allan kostnað verulega niður og því á viðbótarvelta að skila meiri hagnaði en áður.

Til viðbótar eru stýrivextir almennt orðnir lágir sem gerir fyrirtækjum auðveldara að fara í fjárfestingar. Lágir vextir ýta ennfremur á fjárfesta að færa fjármuni úr innlánum og skuldabréfum í hlutabréf.

 

 

Krónan

Krónan veiktist um 0,3% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 234,14 stigum.  Gengi krónu hefur haldist nokkuð stöðugt í sumar.   Gengisvísitalan er á svipuðum slóðum og hún var um miðjan nóvember rétt eftir hrun.

Krónan hefur því ekki náð að styrkjast þrátt fyrir gjaldeyrishöft og mikinn afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum. ,

Halli á viðskiptum við útlönd er enn verulegur sökum mikils halla á þáttatekjum og var viðskiptajöfnuður neikvæður um 10 ma. króna og er þá áhrifum gömlu bankanna sleppt. Draga þarf enn frekar úr innflutningi og auka útflutning til að skapa forsendur fyrir styrkingu krónunnar. 

Í síðustu viku sendi Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) frá sér skýrslu þar sem talið er heppilegast að evra sé tekin upp eins fljótt og auðið er í kjölfar aðildar að ESB. 

Bendir stofnunin jafnframt á að trúverðugleiki peningastefnunar á Íslandi hafi beðið hnekki vegna hárra og sveiflukenndrar verðbólgu á undanförnum árum og eins vegna fjármálakreppunar sem skall á í október 2008.

Hinsvegar er ljóst að af þessu verður ekki fyrr en að allmörgum árum liðnum og flest sem bendir til þess að krónan verði gjaldmiðill íslendinga næstu ár.