Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.    

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

 

Innlend skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um rúm 0,98% í vikunni og óverðtryggðu bréfin hækkuðu um  0,36%. Það er enn töluverð eftirspurn eftir ríkistryggðum bréfum og þá sérstaklega íbúðabréfum.

Ástæðan er aðallega sú að íbúðabréfin eru verðtryggð og henta því lífeyrissjóðunum betur en óverðtryggðu bréfin þar sem skuldbindingar lífeyrissjóðanna eru verðtryggðar.

Til viðbótar er ljóst að framboð verðtryggðra bréfa verður takmarkað næstu mánuðina þar sem útlán Íbúðalánasjóðs eru lítil. Á sama tíma ríkir töluverð óvissa um óverðtryggðu bréfin af tvennum ástæðum.  Í fyrsta lagi er fjárþörf ríkisins ekki ljós og í öðru lagi ríkir mikil óvissa um verðbólguhorfur næstu mánuðina.

Verðbólguvaldarnir um þessar mundir eru aðallega tveir.  Annars vegar er það krónan sem er óútreiknanleg og er í ákveðnu limbói núna. Hins vegar er það ríkisstjórnin, en mikil óvissa ríkir um hversu mikil áhrif aðgerðir hennar á næstu misserum koma til með að hafa á verðlagið.

 

 

Innlend hlutabréf:

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 1,6 % í vikunni og var lokagildi hennar föstudaginn 11. september 807 stig. 

Bakkavör lækkaði mest íslenskra félaga eða um 5,88%.  Í vikunni sendi félagið frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands um að viðskiptum með alla hluti Exista í Bakkavör Group sé lokið og félagið því ekki lengur í eigu Exista.

Þá lækkuðu einnig hlutabréf í  Össuri og Marel í vikunni,  Össur lækkaði um 4,28% og  Marel um 1,68%. 

Føroya Bank hækkaði um 0,73%  en engin viðskipti voru með bréf í færeyska félaginu Atlantic Petroleum  þessa vikuna.

 

 

Erlend hlutabréf

Heimshlutabréfavísitala MSCI hækkaði um 4,07% í vikunni, Dow Jones í Bandaríkjunum hækkaði um 1,74%, DAX vísitalan í Þýskalandi um 4,45%, Nikkei í Japan um 2,52% og breska FTSE vísitalan hækkaði um 3,29%.

Samnorræna VINX Benchmark vísitalan hækkaði um 3,19% og var almennt mjög góður gangur á hlutabréfum á norðurlöndunum.

Almennt virðist ríkja bjartsýni um að efnahagslífið sé að rétta úr kútnum. FTSE-vísitalan í London náði 5.000 stigunum, og er þetta í fyrsta sinn í 11 mánuði sem hún nærð þessum hæðum. Þetta þykir vera til marks um að breska hagkerfið sé að komast yfir kreppuna.

Jákvæðar fréttir bárust frá Bandaríkjunum í vikunni og hafa hlutabréfavísitölur þar í landi ekki verið hærri á þessu ári en í vikunni. Ástæðan fyrir þessum hækkunum má rekja til jákvæðra hagtalna, sem sýndu að viðskiptahalli í Bandaríkjunum jókst úr 27,5 milljörðum dala í júní í 32 milljarða dala í júlí.

Þetta bendir til að innflutningur og þar með einkaneysla sé að aukast sem hafði góð áhrif á alla erlendu markaði í vikunni.

 

 

Krónan

Krónan styrktist lítillega í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ, og endaði gengisvísitalan í 233,65 stigum.

Minnkandi áhættufælni fjárfesta á flestum mörkuðum hefur ekki náð að vekja áhuga fjárfesta á krónunni, en líklegt er að gjaldeyrishöftin skipti þar verulegu máli. Veruleg lækkun á skuldatryggingarálagi á skuldir ríkissjóðs Íslands ætti að hafa jákvæð áhrif á gengi krónunnar.

Það vekur athygli að síðan um miðjan mars hefur áhættufælni fjárfesta minnkað verulega og skuldatryggingaálag á ríkissjóðs Íslands lækkað mjög mikið.  

Í mars á síðasta ári sneri krónan úr styrkingarfasa í veikingarfasa.   Þessi þróun krónunar hlýtur að vera stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands verulegt áhyggjuefni, með hliðsjón áðurnefndra þátta, að því gefnu að vilji sé til þess styrkja krónuna til skemmri tíma.