Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.    

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

 

Innlend skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf lækkuðu um 0,43% í vikunni og óverðtryggðu bréfin hækkuðu um  0,62%. Verðtryggði vaxtaferillinn er flatur nema að stysta bréfið eru með töluvert lægri kröfu. Ástæða þess er að fjárfestar vilja verðtryggja sig til skemmri tíma og lágmarka tap ef ávöxtunarkrafan fer upp. 

Hins vegar er óverðtryggði vaxtaferilinn upphallandi, hærri ávöxtunarkrafa sem bréfin eru lengri. Erlendir aðilar sem eru fastir með fé sitt hér á landi sækja ennþá mest í stutt óverðtryggð bréf og kaupkraftur frá þeim hefur þrýst kröfunni niður. 

Sé horft til fjögurra ára þá er verðbólguálagið nú um 3,5% og um 4% til sjö ára. Það er mun lægra en sem nemur verðbólga undanfarna áratugi en samt nokkuð hátt sé horft til stöðu hagkerfisins og væntinga almennings.

Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5% og því er mat fjárfesta að Seðlabanki Íslands nái ekki markmiði sínu sé horft yfir nokkurra ára tímabil.

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði um 0,84% í vikunni. Tvö af sex félögum vísitölunnar lækkuðu, Icelandair um 48,7% og Atlantic Petrolium um 3,0%. Þessi mikla lækkun Icelandair varð er gengi félagsins fór úr 3,9 og niður í 2,0 í þrennum viðskiptum samtals að upphæð 600 þúsund sem lækkaði markaðsvirði félagsins um tæpa 2 milljarða.

Bakkavör hækkaði um 9,4%, Færeyjabanki um 0,7% og Össur um 0,4%. Gengi bréfa Marels var það sama við upphaf og lok vikunnar.Af tilkynningum félaganna til Kauphallar ber hæst sala á hlutum Exista í Bakkavör. Enn fremur kom fram að Atlantic Petrolium hefur enn hug á að gefa út nýtt hlutafé á árinu.

 

 

Erlend hlutabréf

Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum hækkuðu aðra vikuna í röð.  Dow Jones hækkaði um 2,2% í síðustu viku og hefur ekki verið í hærra gildi síðan 6. október á síðasta ári, en hækkun frá áramótum er 11,9%.  S&P 500 hækkaði  um 2,5% í vikunni , 18,6% frá áramótum og Nasdaq um 2,5%, 35,2% frá áramótum.

Markaðir í Evrópu hækkuðu einnig í síðustu viku.  FTSE í London hækkaði um 3,2%, CAC í París hækkaði um 2,5% og DAX í Frankfurt um 1,4%.  Þessar vísitölur hafa hækkað á bilinu 16,7%-19,0% frá áramótum.

Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um 0,7% í síðustu viku en hefur hækkað um 17,1% frá áramótum, Hang Seng í Kína hækkaði í síðustu viku um 2,2% og hefur hækkað um 50,3% frá síðustu áramótum.

Samnorræna VINX vísitalan hækkaði í síðustu viku um tæp 2% og hefur hækkað um rúm 41% frá áramótum. Þá  hækkaði MSCI heimshlutabréfavísitalan um 1,8% í síðustu viku og nemur hækkun frá áramótum um 23,8%. Þrátt fyrir góðar hækkanir á þessu ári þá er engin af ofangreindum vísitölum í hærra gildi í dag en fyrir ári síðan.

Tölur um aukningu í smásölu og iðnframleiðslu í Bandaríkjunum gefa til kynna að hagkerfið sé að rétta úr kútnum og þá hafði það jákvæð áhrif á markaði að seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, lét hafa það eftir sér í síðustu viku að samdráttarskeiðið sé mjög líklega á enda.

 

 

Krónan

Sáralítil breyting var á gengi krónunnar í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ, og endaði gengisvísitalan í 233,7 stigum.   Fyrsta inngrip Seðlabankans í september átti sér stað á föstudaginn en þann dag styrktist krónan um 0,3% eftir að hafa veikst um 0,3 % daginn áður. 

Seðlabanki Íslands tilkynnti sama dag að hann hefði ákveðið að endurskipuleggja og efla gjaldeyriseftirlit og þannig herða eftirlit með gildandi gjaldeyrishöftum.   Með þeirri ákvörðun vonast hann til að styrkja gengi krónunnar og ekki síst að auka jafnræði milli aðila sem eiga viðskipti með krónuna.

Þrátt fyrir erfiða stöðu krónunnar hafa aldrei fleiri verið andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu.  Samkvæmt skoðannakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins dagana 25. ágúst til 10. september segjast 26 % aðspurðra vera mjög andvígir aðild og 24% segjast vera frekar andvígir.