Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.    

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

 

Innlend skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu um 0,93% í vikunni og óverðtryggðu bréfin hækkuðu um  0,48%. Ríkistryggð bréf hækkuðu í  verði þrátt fyrir að SÍ héldi vöxtum óbreyttum og gerði ráðstafanir sem eiga að stuðla að aftöppun lausafjár úr bankakerfinu.

Það gerði hann með því að bjóða aftur upp á innstæðubréf með 28 daga bindingu þar sem vextir verða á bilinu 9,5 - 10%. Ef bankarnir nýta sér þetta í stórum stíl, er ekki útilokað að óverðtryggðir vextir hækki eitthvað.

Seðlabankastjóri gaf sterklega í skyn að  vaxtalækkunarferlið geti ekki haldið áfram fyrr en Icesavemálið sé í höfn þar sem afgreiðsla AGS hangi alfarið á lausn þess.  Markaðurinn virðist trúa að þetta leysist fljótlega og því var áfram nokkuð sterkur kaupkraftur.

 

 

 

Innlend Hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði í síðustu viku um 0,26% og var lokagildi vísitölunnar 801,80 stig. Fjögur af sex félögum í vísitölunni hækkuðu og tvö lækkuðu.  Bréf í Icelandair hækkuðu mest eða um 10% og var lokagengið 2,20, næst mest hækkaði Bakkavör eða um 9,38% og gengi félagsins endaði vikuna í 1,75. 

Mesta lækkun í síðustu viku var hjá færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum og nam hún 7,04%.  Þessar hækkanir og lækkanir urðu þó í afar litlum viðskiptum.

Mesta veltan var með bréf í Marel eða fyrir rúman 1,5 milljarð í 18 viðskiptum og endaði gengi bréfanna í 59,9 og nam hækkun vikunnar um  2,6%.  Í síðustu viku kom fram í fréttatilkynningu frá Marel að sjóðir á vegum Columbia Wanger Asset Management hafi fest kaup á 32,2 milljónum hluta í félaginu á genginu 59 sem jafngildir 5,2% eignarhlut. 

Alþjóðleg eignaraðild í Marel hækkar úr 11% í 16% við þessi viðskipti.  Columbia Wanger Asset Management, L.P. er eignastýringarfyrirtæki og dótturfélag Bank of America Corporation.

 

 

 

Erlend hlutabréf

Almenn lækkun varð á erlendum hlutabréfamarkaði í síðustu viku. Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum lækkuðu í síðustu viku.  Dow Jones lækkaði um 1,58%, S&P 500 lækkaði um 2,24% og Nasdaq um 1,97%.  

Þessar sömu vísitölur hafa allar hækkað frá áramótum.  Dow Jones hefur hækkað um 10,13% frá áramótum,  Nasdaq um 32,59% og S&P 500 um 15,62%.

Markaðir í Evrópu lækkuðu einnig í síðustu viku.  FTSE í London lækkaði um 1,75%, DAX í Þýskalandi lækkaði um 2,15% og CAC í Frakklandi lækkaði um 2,32%.  Frá áramótum hefur FTSE vísitalan hækkað um 14,44%, DAX um 16,87% og CAC um 16,07%.

Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um 1,01% í síðustu viku en hefur hækkað um 12,98% frá áramótum.   Hang Seng í Kína lækkaði um 2,77% í síðustu viku og hefur hækkað um 43,10% frá áramótum.

Að lokum lækkaði samnorræna VINX vísitalan um 2,70% og hefur hækkað um 36,08% frá áramótum.  Heimshlutabréfavísitalan MSCI lækkaði um 2,11% í síðustu viku en hefur hækkað um 21,21% frá áramótum. 

 

 

 

Krónan

Krónan veiktist um 0,8% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 235,6 stigum. Í vikunni  tilkynnti Seðlabanki Íslands um óbreytta stýrivexti. Benti bankinn jafnframt á þá staðreynd að innlánsvextir hans hafi mest vægi á vaxtastig í landinu fremur en vextir í endurhverfum viðskiptum. 

Innlánsvextir SÍ eru nú 9,5%, en ástæða þess að þeir hafa mest vægi er ófgnótt lausafjár, enda eru innlán mjög mikil í bönkunum.  Seðlabankinn mun  bjóða uppá innistæðubréf á 9,5-10% vöxtum til 28 daga í senn og með því vonast hann til að geta dregið laust fé af markaði.

Það gæti hækkað innlánsvexti bankanna og þannig aukið vaxtamun við útlönd til að ná fram styrkingaráhrifum á krónuna. Að mati seðlabankastjóra þá er lausn Icesave forsenda fyrir lækkun vaxta og afnámi gjaldeyrishafta.