Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.    

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

 

Innlend skuldabréf

Verðtryggð ríkisskuldabréf (íbúðabréf) hækkuðu um 1,28% í vikunni og óverðtryggðu bréfin (ríkisbréf) lækkuðu um 0,33%. Óverðtryggðu bréfin lækkuðu í verði vegna áforma Seðlabanka Íslands um 60  milljarða útgáfu fyrri hönd ríkissjóðs.

Einnig kom fram að engin útgáfa íbúðabréfa var á þriðja ársfjórðungi en erfitt er að spá í framhaldið í þeim efnum. Vangaveltur um flutning íbúðalána frá bönkum til íbúðalánasjóðs var ekki staðfestur þegar tilkynnt var um aðgerðir ríkissjóðs til handa heimilunum.

Ríkið tilkynnti um miklar skattahækkanir á næsta ári en leiða má líkur að svigrúm heimila og fyrirtækja sé lítið til að mæta því. Veruleg hætta er á að skattahækkunum verði velt út í verðlag í gegnum launahækkanir og aukna álagningu á vörur og þjónustu. Þó vinnur slaki í hagkerfinu á móti.

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði í síðustu viku um 0,14% og var lokagildi vísitölunnar 802,91 stig. Tvö af sex félögum í vísitölunni hækkuðu og tvö lækkuðu.  Bréf í Marel hækkuðu um 9,18% og var lokagengið 65,40 og bréf Össurar um 1,65% og gengi félagsins endaði vikuna í 123,50. 

Þau tvö félög sem lækkuðu í síðustu viku voru Færeyjabanki um 4,24% og Bakkavör um 2,86%.Mesta veltan var með bréf í Marel eða fyrir rúman 1,7 milljarð í 57 viðskiptum og Össur fyrir 72 milljónir í 15 viðskiptum. Engin viðskipti voru með bréf Atlantic Petrolium og Icelandair.

Heildarviðskipti með hlutabréf í nýliðnum mánuði námu rúmum 13 milljörðum eða um 595 milljónum á dag. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga nam um 204 milljörðum og þar af var Össur stærst eða 52 milljarðar, Marel 38 milljarðar og Færeyjabanki um 35 milljarðar.

Atlantic Petroleum tilkynnti í lok vikunnar að áskriftartímabil til forkaupsréttarhafa yrði frá 5. október til og með 22. október. Hluthafar fá rétt til að skrá sig fyrir 4 nýjum hlutum fyrir hverja 3 núverandi hluti í félaginu og er áætlað að hinu nýju hlutir verði teknir til viðskipta í Kauphöllinni 3. nóvember. Ætlunin er að safna DKK 188 milljónum með þessu nýja hlutafé.

Century Aluminum ætlar að birta afkomu 3. ársfjórðungs eftir lokun markaða þriðjudaginn 27. október og kynningarfund í kjölfarið sem hægt verður að fylgjast með á netinu af heimasíðu félagsins http://www.centuryaluminum.com/.

Í upphafi vikunnar tilkynnti Icelandair um áætlanir sínar til þess að fjölga komum ferðamanna til landsins. Ætlar félagið að auka áætlunarflug sitt um 10% og fjölga með því ferðamönnum um 20-25 þúsund sem áætlað er að myndu verja um 6 milljörðum til kaupa á vöru og þjónustu hér á landi. Telja forsvarsmenn fyrirtækisins að þessi aukning gæti skapað um 400 störf í flugi og ferðaþjónustu um allt land.

 

 

Erlend hlutabréf

Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum lækkuðu aðra vikuna í röð.  Dow Jones og S&P 500 vísitölurnar lækkuðu báðar um 1,84% og Nasdaq lækkaði um 2,05% í síðustu viku.  Frá áramótum hefur Dow Jones hækkað um 8,10%, S&P 500 um 13,50% og Nasdaq um 29,87%. 

Á föstudaginn voru birtar atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum fyrir september mánuð.  Fækkaði störfum óvænt um 263.000 í mánuðinum og mælist atvinnuleysi þar nú 9,8%.   Leita þarf aftur til ársins 1983 til að finna sambærilegar tölur.  Þá drógust væntingar bandarískra neytenda saman í september en væntingavísitalan mælist nú 53,1 stig en var 54,5 stig í ágúst.

Markaðir í Evrópu lækkuðu einnig í síðustu viku.  FTSE í London lækkaði um 1,84% en hefur hækkað um 12,51% frá áramótum.  Dax í Þýskalandi lækkaði um 2,03% og hefur hækkað um 13,67% frá áramótum.  CAC í Frakklandi lækkaði um 2,39% og hefur hækkað um 13,42% frá áramótum.

Mikil lækkun var á helstu mörkuðum Asíu í síðustu viku.  Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um 5,20% og Hang Seng í Kína lækkaði um 3.09%.   Frá áramótum hefur Nikkei hækkað um 9,85% og Hang Seng um 41,62%. Þá lækkaði samnorræna VINX vísitalan um 3,67% og heimshlutabréfavísitalan MSCI lækkaði um 2,38%. 

VINX vísitalan hefur hækkað um 37,03% frá áramótum en MSCI um 18,33%. Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er efnahagsástandið í heiminum á batavegi.  Ekki er þó búist við að batinn verði hraður en horfur eru á að Asía muni leiða markaðinn í uppsveiflunni.

 

 

 

Krónan

Krónan styrktist um 0,51% í vikunni skv. opinberu viðmiðungargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 234,42 stigum. Evran kostaði 182,15 kr. og dollarinn 125,24 kr. Undanfarið hefur krónan styrkst gagnvart evru á aflandsmarkaði og nemur styrkingin 10% frá því um miðjan ágúst og kostar evran nú um 200 kr.

Aflandsmarkaðurinn er ekki að fullu marktækur þar sem enginn einn aðili heldur utan um heildarumfang viðskipta eða uppruna kaup- eða sölutilboða.Viðskiptin á aflandsmarkaði fara beint á milli kaupanda og seljanda. Hann gefur þó ákveðnar vísbendingar um hver raunstaða krónunnar er.

Þessi þróun á aflandsmarkaði er jákvæð þar sem nú er minni hvati fyrir aðila að fara fram hjá gjaldeyrislögunum þar sem ágóðavonin er orðin minni en áður. Ennfremur minnkar þetta líkurnar á að krónan veikist mikið þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt.