Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend skuldabréf

Í síðustu viku lækkuðu tveir stystu flokkar verðtryggðra ríkisskuldabréfa í verði en tveir lengstu hækkuðu og fór ávöxtunarkrafa þeirra niður undir 4%. Óverðtryggðu flokkarnir lækkuðu flestir í verði og er krafa þeirra á bilinu 6,66% - 8,45%.

Viðskipti með ríkistryggð skuldabréf í síðustu viku voru í kringum 54,5 ma.kr. sem er svipuð velta og undanfarnar vikur.  Velta með verðtryggð ríkisbréf var 28,7 ma.kr. og 25,8 ma.kr. með óverðtryggðu bréfin.  Mest velta var með lengsta íbúðabréfaflokkinn HFF44, í kringum 11 ma.kr.  Næst mest velta var með óverðtryggða flokkinn RIKB19 fyrir um 8 ma.kr.

Í upphafi síðustu viku þá efndi Seðlabankinn til útboðs á íbúðabréfum sem ríkissjóður eignaðist við fall viðskiptabankanna haustið 2008.  Eftirspurn var mest eftir HFF44 flokknum og voru öll bréf í þeim flokki seld sem boðið var upp alls 5,1 ma.kr. að nafnvirði. 

Eftir stendur þá eign í HFF34 fyrir 3,2 ma.kr. að nafnvirði og 4,3 ma.kr. að nafnvirði í HFF24.  Ávöxtunarkrafa útboðsins var lítið hærri en við lokun síðasta viðskiptadags á undan. Þrátt fyrir útboðið þá var lítil breyting á ávöxtunarkröfunni við lokun markaða og gæti þar spilað inn í að líklega verður framboð nýrra íbúðabréfa lítið það sem eftir lifir árs sem ætti að öllu jöfnu að halda aftur af kröfuhækkun. 

Það sem styður við það er að samkvæmt endurskoðaðri útgáfuáætlun Íbúðalánasjóðs mun ný útgáfa íbúðabréfa verða talsvert minni heldur en endurskoðuð áætlun frá því í vor gerði ráð fyrir.  Í henni var gert ráð fyrir um 30 milljarða útgáfu en samkvæmt endurskoðaðri áætlun mun ný útgáfa á árinu verða nálægt 20 milljörðum.  Er þessi minni útgáfa í takt við það ástand sem ríkir á fasteignamarkaði.



Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði í síðustu viku um 0,88% og var lokagildi vísitölunnar 809,98 stig. Tvö af sex félögum í vísitölunni hækkuðu og tvö lækkuðu.  Bréf í Færeyjabanka hækkuðu um 3,69% og var lokagengið 140,5 einnig hækkuðu bréf Marel lítillega eða um 0,31%. 

Þau tvö félög sem lækkuðu í síðustu viku voru Atlantic Petrolium um 14,60% og Össur um 0,81%. Gengi bréfa Bakkavarar var það sama í upphafi og lok vikunnar.

Mesta veltan var með bréf Össurar eða fyrir rúmar 147 milljónir í 15 viðskiptum og Marel fyrir 67 milljónir í 11 viðskiptum. Engin viðskipti voru með bréf Icelandair frekar en í síðustu viku.

Af fréttum vikunnar má helst nefna að Vörður Tryggingar hf. er nú komið í 51% eigu Færeyjabanka, tilkynnt var um yfirtökuna á mánudaginn. Þeir hluthafar sem fyrir voru, Landsbankinn, SP-Fjármögnun og Byr sparisjóður munu áfram eiga í félaginu.

Icelandair birti flutningstölur fyrir september á föstudaginn og er 8% aukning í farþegafjölda samanborið við september 2008. Jafnframt gat félagið um að rekstur félagsins hafi gengið vel í ágúst og EBITDA verið 3,1 milljarður sem er 0,5 milljarði hærra en sama mánuð 2008. Áætlanir gera ráð fyrir að EBITDA verði 6,5 milljarðar fyrir árið í heild.

Þrjár tilkynningar frá Marel birtust í vikunni, fyrst um nýjan lista yfir 20 stærstu hluthafa félagsins, svo um nýjar samþykktir og loks að skuldabréfaflokkur Marels (MARL 09 1) væri tekin til viðskipta í Kauphöll þann 7. október. Hægt er að nálgast tilkynningarnar á vef Kauphallar, http://www.nasdaqomxnordic.com/



Erlend hlutabréf

Almenn hækkun varð á erlendum hlutabréfamarkaði í síðustu viku eftir lækkanir í vikunni þar á undan. Bandaríska álfélagið Alcoa skilaði óvænt hagnaði á þriðja fjórðungi ársins, spár voru búnar að gera ráð fyrir 9 senta tapi á hlut en hagnaðurinn var 8 sent á hlut. Í tilkynningu frá Alcoa segir að vísbendingar séu um meiri stöðugleika á markaði.

Álbirgðir séu frekar litlar og því sé spáð að álnotkun aukist um 11% á síðari hluta ársins. Heimsmarkaðsverð á áli hefur verið á bilinu 1800-1900 dali á tonn. Alcoa er að venju fyrsta fyrirtækið í Dow Jones hlutabréfavísitölunni, sem skilar uppgjöri.

Mikil eftirvænting er eftir að fleiri félög birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung enda tók markaðurinn mjög vel í uppgjörið frá Alcoa. Markaðurinn er mjög viðkvæmur þessa stundina og hafa allar fréttir mikil áhrif á markaðinn. 

Bandaríkin: Dow Jones hækkaði um 3,98%, Nasdaq um 4,45% og S&P 500 um 3,93%.

Evrópa: FTSE hækkaði um 3,33%,  Dax um 4,46% og CAC um 4,10%.

Asía: Nikkei hækkaði um 3,53% og Hang Seng um 5,52%.

Norðurlöndin: VINX hækkaði um 3,76% og OBX (Norski markaðurinn) hækkaði um 8,78%.



Krónan

Krónan veiktist um 1,2% í vikunni skv. opinberu viðmiðungargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 237,1 stigi. Gengisvísitala krónunnar hefur verði á milli 230 og 240 síðan í byrjun júní. Seðlabankinn hefur dregið mjög úr kaupum á krónum (inngrip).

Vera kann að bankinn vilji láta á það reyna hvar botninn er miðað við að gjaldeyrishöftin eru enn við líði. Aflandsgengi krónunnar er litlu hærra en innlenda gengið, líklega um 8-10% og heldur það við innlenda gengið. Munurinn mun vart minnka í bráð en við jákvæðar fréttir væri líklegra að hvorutveggja styrktist.

Hins vegar er óvissan mjög mikil þessa dagana í tengslum við ICESAVE en ómögulegt er að segja hvað gerist ef ekki verður gengið frá samningum fyrir 23. október, en þá er gjalddagi á skuld tryggingasjóðs innstæðueigenda.




Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.