Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.  

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 


Innlend skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 2,83% í vikunni en óverðtryggðu bréfin hækkuðu um 1,18%. Krafa verðtryggðra bréfa er orðin ansi lág á meðan óverðtryggða krafan hafði heldur hækkað. Ástæðurnar fyrir þessum hreyfingum eru nokkrar.

Nú virðist fjármögnun bankanna að vera að ljúka og á þann hátt að ríkið kemur minna að henni en upphaflega var áætlað. Það leiðir til minna framboðs af óverðtryggðum bréfum en ella.

Til viðbótar er farið að sjá í land í Icesave deilunni og þar með ætti að opnast fyrir lánafyrirgreiðslur til Íslands en það er forsenda þess að hægt sé að halda áfram með vaxtalækkunarferlið.

Gangi þetta eftir gæti farið að skapast smá trúverðugleiki um krónuna sem er forsenda þess að hún styrkist. Með sterkari krónu ættu væntingar um lága verðbólgu næstu misserin að ganga eftir.

 

 

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK lækkaði í síðustu viku um 0,41% og var lokagildi hennar  807 stig. Heildarvelta félaga í vísitölunni var um 336 milljónir.

Tvö af sex félögum í vísitölunni hækkuðu þrjú lækkuðu og eitt stóð í stað. Össur hækkaði um 1,63% og var lokagengið 124,5 og hækkuðu bréf Marel um 0,91% og lokagengið 66,2. 

Mikil lækkun var á bréfum Bakkavarar og Icelandair í mjög litlum viðskiptum eða um 1,5 milljón í hvoru félagi samtals í vikunni. Bakkavör lækkaði úr 1,7 í 1,3 sem gerir 23,53% lækkun og Icelandair lækkaði um 18,18%.

Mesta veltan var með bréf í Össur eða fyrir rúmar 213 milljónir í 12 viðskiptum og Marel fyrir 108 milljónir í 19 viðskiptum. 

 

 

 

Erlend hlutabréf

Áframhaldandi hækkun var á erlendum hlutabréfum í síðustu viku. Mörg af stóru félögunum  birtu uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung og komu þau almennt betur út en spár gerðu ráð fyrir.  Undantekningin var uppgjör stærsta banka Bandaríkjanna (Bank of Amerika).

Tap á rekstri Bank of America nam 1  milljarði dala, jafnvirði 124 milljarða króna. Ástæða tapsins eru að stóru hluta til vegna afskrifta útlána en bankinn hefur verið stærsti lánveitandi neytendalána í Bandaríkjunum.

Hagnaður bandaríska bankans Citigroup nam 101 milljón Bandaríkjadala eða 12,4 milljörðum íslenskra króna. Á þriðja ársfjórðungi í fyrra nam tap  Citigroup 2.815 milljónum Bandaríkjadala.

Google tilkynnti um methagnað sem nam einum milljarð punda eða rúmlega 200 milljörðum króna. Hagnaðurinn jókst um 27% miða við sama tímabil í fyrra. Almennt er talið að Google hafi staðið kreppuna betur af sér en önnur fyrirtæki í auglýsinga bransanum og verði fyrstur til að njóta góðs af endurreisn efnahagslífsins. 

Almennt komu uppgjör stóru fjarfestingarbanka vel út og þar má nefna JPMorgan Chase & Co sem skilaði 3,6 milljörðum dollara eða 442 milljarðar króna hagnaði. Goldman Sachs skilaði mjög góðu uppgjöri og sló raunar öllum væntingum við, hagnaðurinn nam 3,19 milljörðum dollara eða um 400 milljarða króna.

Dow Jones vísitalan náði 10 þúsund stigum 14. október en það hefur ekki gerst frá 7. október í fyrra. En þess má þó geta að Dow Jones er 25% lægri miða við fast verðlag síðan 1999.

Á föstu verðlagi ársins 1999 jafngilda 10 þúsund stig í Dow Jones vísitölunni rúmlega 7500 stigum í dag, ástæðan fyrir þessu er verðbólga og veiking dollars. Vísitalan hækkaði um 1,33% í vikunni, Nastaq hækkaði um 0,82% og S&P 500 um 1,51%.

Aðrar hlutabréfavísitölur hækkuð einnig. FTSE hækkaði um 1,18%, DAX um 2,08%, CAC um 0,74%, Nikkei hækkaði um 2,41% og Hang Seng um 2,00%.

 

 

 

Krónan

Krónan styrktist um 0,25% í vikunni skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 236,55 stigum.  Á föstudaginn endaði bandaríkjadalur í 123,83 krónum, sterlingspundið í 201,85 krónum og evran í 184,67 krónum.

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra fundaði með ríkisstjórninni í vikunni þar sem m.a. var rætt um afnám gjaldeyrishafta.  Í byrjun nóvember stendur til að létta á gjaldeyrishöftunum þrátt fyrir töf á láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.  Það verður fyrsti áfanginn í opnun á innstreymi fjármagns frá erlendum aðilum á markaðinn hérlendis.

Nú lítur út fyrir að Icesave málinu ljúki áður en að það kemur að gjalddaga skuldar tryggingasjóðs innstæðueiganda, en hann er 23. október.  Fróðlegt verður að sjá hvaða áhrif það hefur á gengi krónunnar næstu vikuna.

 

 

 

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.