Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,44% í vikunni og stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,94%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu um 1,21%.

Ríkistryggð skuldabréf héldu því áfram að hækka í vikunni og hafa hækkað verulega í júnímánuði og reyndar frá áramótum.

 Dómur hæstaréttar um gengistryggðu lánin hefur skapað enn meiri óvissu um bankakerfið en áður var. Þetta hefur ýtt undir fjárfesta að setja stærri hluta af eignum sínum í ríkistryggð bréf og draga á móti úr stöðum á bankareikningum.

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 1,4% á milli vikna.  Veltan var um 262 milljónir króna, mest með Marel fyrir um 206 milljónir og hækkaði gengi félagsins um rúm 5%. Þetta er 4. vikan í röð sem gengið hækkar.  Icelandair hækkaði mest í vikunni, um 21% í litlum viðskiptum. 

 Eik banki sem kemur inn í OMXI6ISK vísitöluna þann 1.júlí fyrir Atlantic Airways ætlar að sækja sér 4 milljarða danskra króna með þremur skuldabréfaútgáfum í síðustu viku júnímánaðar. 

 Bréfin verða gefin út með ábyrgð danska ríkisins og eru hluti af björgunarpakka sem danska ríkið bauð bönkum í Danmörku og Færeyjum upp á eftir að fjármálakreppan skall á 2008. 

 Samkvæmt samkomulagi sem var gert í mars getur Eik banki náð sér í fjármagn upp á 9,1 milljarð danskra króna sem skiptist þannig að Eik banki í Færeyjum getur sótt sér 6,6 milljarða og dótturfélagið Eik banki Danmörk getur sótt 2,5 milljarða.  Í maí var skuldabréfaútgáfa upp á 1 milljarð og nemur því heildarútgáfa 5 milljörðum.

 Með þessum útgáfum hefur bankinn náð að endurfjármagna allar skuldir sem eru á gjalddaga á þessu ári og því næsta samkvæmt forstjóra Eik banka.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 147,00 0,00% -3,29% -8,13% 14,84% 13,51% 21,99%
FO-AIR 122,00 0,00% -3,94% -7,58% -13,48% -13,48% -25,61%
FO-ATLA 150,00 -2,60% -7,12% -5,96% -1,64% -6,25% -52,13%
ICEAIR 3,75 20,97% 20,97% 13,64% 2,74% 2,74% -21,05%
MARL 90,00 5,26% 19,21% 13,21% 45,40% 44,23% 74,08%
OSSR 180,50 0,28% 1,98% -5,25% 19,93% 16,83% 61,88%
OMXI6ISK 908,28 1,40% 3,51% -5,25% 13,27% 11,45% 23,95%

 (Nasdaq OMX Nordic, 28. júní 2010)

Erlend hlutabréf

Það ríkti ekki mikil bjartsýni á markaði í síðustu viku og lækkuðu flest allar hlutabréfavísitölur heims. Fjárfestar óttast skuldakreppu margra Evrópuríkja og að efnahagsbati heimsins sé byggður á veikum grunni.

Alþýðubanki Kína hefur slakað aðeins á gengisstýringu sinni eftir mikinn þrýsting frá Bandaríkjunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er gert í þeirri von að júanið muni styrkjast en genginu hefur markvisst verið haldið niðri frá því lánsfjárkreppan skall á árið 2008. 

Með lágu gengi hefur samkeppnishæfni framleiðslu- og útflutningsiðnaðar í landinu verið mjög hagstæður. Verð á innfluttum vörum er að sama skapi óhagstætt. Með því hefur gjaldeyrisforði Kína stækkað gríðarlega mikið.

 Hlutabréfaverð olíurisans BP hefur ekki verið lægra í 14 ár en félagið lækkaði um 12,85% í vikunni. Ástæða lækkunarinnar er sú að  illa gengur að koma í veg fyrir lekann í Mexikoflóa, kostnaður fyrirtækisins við björgunaraðgerðir er kominn í 2,35 milljarða dollara. Bloomberg fréttaveitan segir að þessi kostnaður geti numið nær 40 milljörðum dollara þegar upp er staðið.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1082,39 -3,19% -0,07% -9,54% -8,23% -7,61% 12,01%
Þýskaland (DAX) 6070,60 -2,36% 3,07% 0,15% 2,10% 2,88% 28,32%
Bretland (FTSE) 5046,47 -3,88% -2,18% -11,01% -6,06% -6,24% 19,67%
Frakkland (CAC) 3519,73 -4,51% 1,06% -10,95% -10,00% -9,76% 13,50%
Bandaríkin (Dow Jones) 10143,81 -2,94% 0,07% -6,51% -3,82% -2,73% 20,21%
Bandaríkin (Nasdaq) 1838,52 -3,92% -0,75% -5,84% -2,11% -1,17% 24,21%
Bandaríkin (S&P 500) 1076,76 -3,63% -1,16% -7,70% -4,52% -3,44% 17,18%
Japan (Nikkei) 9737,48 -2,58% -0,71% -11,84% -8,84% -8,08% -1,86%
Samnorræn (VINX) 87,38 -3,72% 3,21% -2,89% 10,61% 10,12% 38,79%
Svíþjóð (OMXS30) 1021,43 -2,40% 10,18% -0,68% 6,73% 7,83% 31,72%
Noregur (OBX) 312,51 -5,31% -1,04% -7,01% -7,49% -7,06% 24,87%
Finnland (OMXH25)  2152,95 -2,42% 9,39% -5,04% 8,24% 6,54% 37,38%
Danmörk (OMXC20) 403,36 -3,33% 5,40% 6,06% 21,90% 21,15% 45,37%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 28. júní 2010)

Krónan

Krónan veiktist í liðinni viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,4% og endaði í 213,9 stigum.

Seðlabankinn lækkaði vexti sína um 0,5% prósentustig en gaf til kynna að lækkunin hefði getað orðið meiri ef dómar hæstaréttar um gengistryggð lán hefðu ekki komið til. Af orðum seðlabankastjóra má ráða að hann telji að efnahagsmálin séu sett í mikla óvissu.

Það tengist ekki síst afnámi gjaldeyrishafta og þróun vaxta. Skilaboðin frá Seðlabankanum hafa undanfarið verið þannig að stefna skuli að því að afnema höftin eins fljótt og mögulegt sé.

Líklegt er þó að þrátt fyrir að dómarnir um gengistryggð lán hefðu ekki fallið, þá yrði afnám haftanna hægara og minna en af orðum seðlabankastjóra má ráða. Þar vegur þungt að innlendir aðilar sem eiga verulegar fjármagnseignir myndu vilja flytja peninga sína úr landi.

Með lækkandi vöxtum, hækkandi fjármagnstekjuskatti og hækkandi eignaskatti (auðlegðarskattur) má búast við að raunávöxtun efnameiri aðila verði lítil næstu misserin. Því má gera ráð fyrir að innlent fjármagn sé ekki síður kvikt og jafnvel kvikara en það sem erlendir aðilar eru með fast hér á landi.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 213,93 0,41% -1,37% -6,12% -8,51% -8,11% -7,95%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 28. júní 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.