Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Verð skuldabréfa breyttist lítið í vikunni. Löng verðtryggð bréf hækkuðu um 0,21% og stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,25%. Löng óverðtryggð bréf lækkuðu einungis  um 0,05%.

Markaðurinn hefur því aðeins róast eftir mikla keyrslu í september. Trúlegt er að nú fari fjárfestar að innleysa hagnað eftir miklar gengishækkanir að undanförnu.

Mánudaginn 13. september var ríkisvíxlaútboð hjá Lánamálum ríkisins. Í útboðinu var tekið tilboðum fyrir rúma 20 milljarða á 4,51% flötum vöxtum og eru þessi kjör heldur betri en reiknað var með.

Á miðvikudaginn birtir svo SÍ stýrivaxtaákvörðun sína og reiknum við með að minnsta kosti 100 punkta lækkun stýrivaxta sem verða þá komnir í 6% og eru þá búnir að lækka um 12 prósentustig frá hæsta punkti.

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 1,13% í síðustu viku og hefur hækkað um 21% frá áramótum.  Mesta hækkun var á Atlantic Petroleum (2,56%) í viðskiptum upp á 8 milljónir að markaðsvirði

Mjög lítil velta var með hlutabréf í síðustu viku, heildarveltan nam tæpum 87 milljónum, mest með Össur fyrir 59 milljónir. Hefur Össur hækkað um 21% síðustu þrjá mánuði og 77% síðustu tólf mánuði.

Athygli vekur að Icelandair hefur hækkað um 75% síðustu tólf mánuði en í síðustu viku sýndi tólf mánaða breytingin lækkun um 10% en engin viðskipti voru með bréf félagsins í vikunni.  Skýringin liggur í mikilli lækkun á bréfum félagsins fyrir ári síðan er gengið fór úr 3,90 í 2,0.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 139,00 -0,71% -0,71% -5,44% -12,58% 7,34% -0,36%
FO-ATLA 160,00 2,56% 12,68% 3,90% -1,84% 0,00% -31,68%
FO-EIK 70,00 0,72% -7,28% -15,66% -11,95% -12,50% -18,60%
ICEAIR 3,50 0,00% 0,00% 12,90% 20,69% -4,11% 75,00%
MARL 94,90 0,96% 2,82% 10,99% 21,98% 52,08% 62,22%
OSSR 217,00 0,93% 8,23% 20,56% 18,58% 40,45% 77,14%
OMXI6ISK 969,16 1,13% 4,03% 8,19% 3,41% 18,92% 21,18%

(Nasdaq OMX Nordic, 20. september 2010)

Erlend hlutabréf

Almennt hækkuðu helstu hlutabréfamarkaðir í síðustu viku að Evrópu undanskilinni þar sem verðið var nánast óbreytt.  Í Bandaríkjunum hækkaði S&P500 um 1,5%, en Nasdaq hækkaði um 3,27%, Nikkei í Japan hækkaði um 4,19% en aftur á móti lækkaði Dax í þýskalandi um 0,08%.  Heimsvísitala MSCI hækkaði um 1,54%.

Í vikunni seldi Seðlabanki Japans jen í fyrsta skipti frá árinu 2004 og gaf gjaldmiðillinn nokkuð eftir. Fjármálaráðherra Japans greindi frá því að til stæði að grípa enn frekar inn í gjaldeyrismarkaðinn. Markmiðið er að gera útflutning Japana samkeppnishæfari. Tilkynningin hafði jákvæð áhrif á markaði í Japan og hækkuðu hlutabréf umtalsvert í vikunni. 

Fjárfestar halda áfram að fjárfesta í gulli og hefur verð á gulli aldrei verið hærra en nú, er komið í 1267 dali únsan.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1157,07 1,54% 5,70% 3,65% -2,91% -1,06% 1,46%
Þýskaland (DAX) 6209,76 -0,08% 4,04% 0,50% 4,44% 4,88% 9,54%
Bretland (FTSE) 5508,45 0,13% 7,10% 5,97% -1,52% 2,79% 7,56%
Frakkland (CAC) 3722,02 -0,10% 6,52% 1,86% -4,32% -4,58% -1,88%
Bandaríkin (Dow Jones) 10607,85 1,46% 3,86% 1,50% -1,25% 1,72% 8,02%
Bandaríkin (Nasdaq) 2315,61 3,27% 6,23% 0,25% -2,48% 2,05% 8,57%
Bandaríkin (S&P 500) 1125,59 1,50% 5,03% 0,72% -2,96% 0,94% 5,36%
Japan (Nikkei) 9509,50 4,19% 4,87% -3,69% -11,07% -8,73% -7,18%
Samnorræn (VINX) 94,90 0,37% 7,29% 4,82% 6,20% 19,04% 22,20%
Svíþjóð (OMXS30) 1081,98 1,22% 6,26% 2,84% 6,29% 13,95% 17,85%
Noregur (OBX) 344,82 0,93% 6,55% 4,53% 3,00% 1,67% 16,70%
Finnland (OMXH25)  2372,21 0,83% 7,32% 7,23% 7,72% 17,34% 19,44%
Danmörk (OMXC20) 412,90 -0,83% 3,87% -0,85% 8,96% 22,88% 22,75%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 20. september 2010)

Krónan

Krónan veiktist í liðinni viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,71% og endaði í 206,6 stigum. Evran hækkaði í verði alla daga vikunnar, en þó mest á föstudag, um 0,57%. Vera kann að seðlabankinn hafi selt krónur í vikunni og það sé ástæðan.

Um helgina var gengið frá sölu á danska bankanum FIH. Seðlabanki Íslands er með veð í nær öllu hlutafé bankans, en bankinn lánaði Kaupþing 500 milljónir evra á haustdögum 2008. Salan mun styrkja gjaldeyrisforðann og reiknar seðlabankastjóri að um 250 milljónir evra muni bætast við forðann fyrir áramót.

Gjaldeyisforðinn var um 550 milljarðar króna í lok ágúst og skiptir því salan þó nokkru máli til eflingar hans. Þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands  og AGS verður tekin fyrir 29. september.

Í kjölfarið gæti forðinn aukist um 160 milljónir dollara frá sjóðnum og 444 milljónir evru frá norðurlöndunum, en útborgun þeirra lána veltur á því hvort lausn hafi náðst í Icesave málinu.

Allavega er ljóst að gjaldeyrisforðinn hefur stækkað verulega sem ætti að auðvelda SÍ að stíga frekari skref í afnámi gjaldeyrishafta.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 206,6002 0,71% -0,83% -2,79% -8,75% -11,26% -11,17%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 20. september 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.